Bjarki Pétursson hefur verið ráðinn forstöðumaður fyrirtækjasölu hjá Símanum. Bjarki var áður í frumkvöðlastörfum fyrir fyrirtæki sitt Zenter sem hann stofnaði árið 2010 en hann leiddi þar ýmis verkefni í markaðsrannsóknum og hugbúnaðargerð. Bjarki kveðst spenntur fyrir nýja starfinu en hann býst við að tæknibreytingar á fjarskiptum geti jafnvel orðið meiri á næstu árum en þær hafa verið á síðustu misserum. Erfitt er að skynja annað en að hann líti á starf í fjarskiptageiranum sem nokkurs konar ferðalag með tækninni.

„Fyrirtækjasvið Símans er náttúrulega að þjónusta þúsundir íslenskra fyrirtækja sem treysta á okkar vörur og þjónustu fyrir sín fjarskiptamál. Við erum með mjög fjölbreytta þjónustu. Það gerir þetta starf mjög spennandi, þetta er fyrst og fremst tæknifyrirtæki. Fjarskipti hafa verið að breytast svo mikið á undanförnum árum og koma til með breytast enn meira á næstu árum og það er rosalega spennandi að fá að taka þátt í slíku ferðalagi,“ segir Bjarki.

Bakgrunnur Bjarka er fyrst og fremst úr smásölu en hann segir einn besta skólann á ferlinum hafa verið þegar hann fékk tækifæri til þess að reka Hard Rock Café undir handleiðslu Tómasar Tómassonar sem er einna þekktastur fyrir Hamborgarabúllu Tómasar í dag. Bjarki segir að Tómas hafi verið frábær leiðbeinandi og einstaklega lunkinn við að átta sig á þörfum viðskiptavina og eftir hvaða þjónustu þeir sæktust eftir. Þá hefur Bjarki einnig starfað fyrir Ölgerðina og Íslandsbanka.

Spurður hvaða stóru verkefni séu í kortunum hjá Símanum nefnir Bjarki Símann Pay, sem er greiðsluþjónusta með snjallforriti sem fyrirtækið setti nýlega á laggirnar.