Kristjana Kristjánsdóttir hefur mikinn áhuga á upplýsingatækni, er mikil íþróttamanneskja og finnst gaman að ferðast. Þrátt fyrir að hafa enga formlega menntun á sviði upplýsingatækni hefur hún brennandi áhuga á henni og hvernig hún getur nýst viðskiptalífinu, og samfélaginu almennt.

Kristjana  lærði viðskiptafræði við Háskóla Reykjavíkur, en meðan á náminu stóð fór hún í skiptinám við Copenhagen Business School. Hún vann auk þess hjá Arion banka meðfram náminu og eftir útskrift fékk hún fullt starf hjá bankanum. „Ég var að vinna í útibúi hjá Arion banka með skóla og bauðst starf í höfuðstöðvunum strax eftir útskrift við alls konar stefnumótandi verkefni, og þar lærði ég rosalega mikið á því að koma fyrst inn á vinnumarkaðinn eftir skóla og verð ævinlega þakklát fyrir það,“ segir Kristjana.

Uppgötvaði upplýsingatækni hjá Arion
Upphaflega ætlaði hún sér í meistaranám í vörumerkjastjórnun fljótlega eftir útskrift úr grunnnáminu, en það átti eftir að breytast. „Að tveimur árum liðnum finn ég það að ég er ekki alveg tilbúin að segja skilið við vinnumarkaðinn strax og svo fæ ég þetta frábæra tækifæri til að færa mig yfir á upplýsingatæknisvið bankans. Fyrir mig var frábært að fá að starfa við upplýsingatækni síðastliðin tvö ár og þar öðlaðist ég grunnskilning og þekkingu sem er ómetanleg. Þessi þverfaglega tenging er gríðarlega mikilvæg í dag, að vera með þekkingu á bæði viðskiptum og upplýsingatækni, og skilja teninguna þar á milli,“ segir hún.

Nú er hún komin yfir í ráðgjöf hjá KPMG, þar sem reynslan mun eflaust nýtast henni vel. „Svo tek ég þetta skref að fara yfir í ráðgjöf, þar sem mig langar að stækka tengslanetið og hjálpa öðrum fyrirtækjum og stofnunum í þessari stafrænu vegferð. Mitt hlutverk verður að aðstoða fyrirtæki við að endurskipuleggja sig á breyttum tímum og að finna leiðir til að nýta sér tæknina,“ segir hún.

Stoltur Selfyssingur
Kristjana á rætur að rekja til Selfoss og er mikil íþróttamanneskja. „Ég er stoltur Selfyssingur að uppruna, en er Vesturbæingur í dag. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum og æfði lengi fimleika. Helstu áhugamál mín eru íþróttir, skíði og ferðalög erlendis og mér finnst fátt betra en góður matur, rauðvín og slökun eftir langan vinnudag.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .