38,1% aukning varð á straumi ferðamanna í gegnum Keflavíkurflugvöll í marsmánuði á milli ára, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Fjöldinn fór úr 83.855 einstaklingum í 115.808.

Fyrstu þrjá mánuði ársins komu til landsins samtals um 294 þúsund ferðamenn. Það er aukning um 77 þúsund manns á milli ára, eða sem nemur 35,5%. Til samanburðar nam aukningin á fyrsta ársfjórðungi í fyrra 31,4%. Um aukninguna er fjallað á síðunni turisti.is

Aukning í ferðamönnum frá Bandaríkjunum og Bretlandi

64,5% af þessari heildaraukningu ferðamanna er frá Bretlandi og Bandaríkjunum og er hlutfall ferðamanna frá þessum löndum nú 55% af heildarferðamannastraumi til landsins. Skýringin á þessari aukningu liggur m.a. í mun meira framboði á flugi héðan til landanna tveggja. Í mars í fyrra buðu til að mynda Delta og WOW ekki upp á beint flug héðan til Bandaríkjanna líkt og þau gera nú. Það sama má segja um Bretland en þangað hefur ferðum einnig fjölgað með flugfélögum á borð við British Airways.

Tvöfalt fleiri Spánverjar

Mikil aukning var í komu Spánverja á milli ára en í mars komu hingað um 1700 Spánverjar en þeir voru um 700 í sama mánuði í fyrra. Aukningin nemur því um 133 % og er skýringu þess að öllum líkindum að sama skapi að finna í bættum flugsamgöngum milli meginlands Spánar og Íslands yfir páskana.