„Sumarið er búið að vera mjög gott, alveg ofboðslega gott veður og mikið af ferðafólki, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn, auk þeirra sem koma af skemmtiferðaskipunum,“ segir María Aðalbjarnardóttir í Gamla bakaríinu á Ísafirði sem þjónað hefur íbúum og gestum bæjarins í yfir 100 ár.

Segir hún að sífellt fleiri skemmtiferðaskip auk annarra ferðamanna séu að skila sér til bæjarins. „Það vilja sífellt fleiri sjá perlu Íslands, Vestfirði.“

Viðskiptavinir safnast eldsnemma á morgnana fyrir utan bakaríið á Silfurtorginu við aðalgötuna í miðjum bænum, en þar opnar klukkan 7 á morgnana. „Íslendingar og túristarnir eru mættir, til dæmis Íslendingar sem eru að fara á Hornstrandir í ferðir.“

Bætt gistiaðstaða og frábær tjaldsvæði

María þakkar aukninguna að hluta til sífellt meiri gistiaðstöðu sem er í boði á Ísafirði og bæjum í kring eins og Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri og Súðavík, bæði á hótelum, gistiheimilum sem og í Airbnb gistingu og sumarbústöðum.

„Það er svo stutt á milli bæjanna en svo erum við með ofboðslega góð tjaldsvæði hérna. Við erum með paradís inní Tunguskógi, það er alveg til fyrirmyndar aðstaðan þar, flott þvottaaðstaða og þurrkarar, eldhús, sturtur, gítar, þeir eru með þetta allt snyrtilegt og flott, í alveg sérlega flottu umhverfi,“ segir María.

„Síðan erum við líka með tjaldsvæði niður í Neðstakaupstað þar sem gömlu húsin eru, þar er líka mjög fínt að vera, sérstaklega fyrir þá sem ætla kannski að fara út að borða og fá sér kannski eitt hvítvínsglas eða bjór, því þá geta þeir bara labbað allt. Svo er líka eitt hjá menntaskólanum, hjá Hótel Eddu. Það eru komnir svo miklir möguleikar, eins og fyrir fólk á húsbílum, fellihúsum og tjaldvögnum.“

Íslendingar og ferðamenn kaupa mismunandi vörur

María er sérlega stolt af kaffinu sem hún segir vera alveg einstaklega gott kaffi. „Það sækja alveg rosalega margir í kaffið okkar. Íslendingarnir kaupa mikið brauð, kringlur og snúa og þetta klassíska,“ segir María en margir þekkja hinar einkennandi mjúku kringlur bakarísins sem Ísafjarðarkringlur.

„Ferðamennirnir, sérstaklega þeir af skemmtiferðaskipunum kaupa meira kaffi, kakó eða te og svo eina svona kökusneið með.“

Margir brottfluttir Vestfirðingar gera sér iðulega ferð í bakaríið til að kaupa landsfrægt sætabrauðið sem þar er á boðstólum, en margt af því fæst hvergi annars staðar á landinu.

Ferðamannatíminn að lengjast í báða enda

María segir ferðamannatímann vera að lengjast og fleiri komi með hverju sumrinu sem líður.

„Yfirleitt hefur ferðamannatíminn verið búinn. Áður var hann búinn eftir verslunarmannahelgina, svo fór hann að lengjast, en eftir menningarnótt sáust ekki lengur hvorki Íslendingar né ferðamenn, en núna er þetta að lengjast. Tímabilið er að lengjast í báða enda, bæði fyrr á vorin og svo eru enn þá túristar hér núna,“ segir María.

Enn er von á skemmtiferðarskipum

Hún fylgist vel með öllu sem er að gerast í bænum til að geta sem best áætlað eftirspurnina í bakaríinu, bæði komu skemmtiferðaskipa en einnig ef ættarmót eða árgangar eru að hittast eða annað slíkt.

„Það eiga nokkur skip eftir að koma og mjög stórt skip kemur til bæjarins þann 13. september, á næsta þriðjudag. Veturnir eru því miður mjög rólegir, þá dregst eftirspurnin mikið saman. Desember er yfirleitt góður, og svo eru Páskarnir mjög góðir hjá okkur og þá lengjum við opnunartímann.“

María segir marga árganga vera farna að hittast á haustin í stað vorin, sem og hún hefur trú á því að Íslendingar hafi í auknum mæli verið að ferðast innanlands í sumar, kannski í kjölfar þess að stór hluti þjóðarinnar ferðaðist til Frakklands á Evrópumeistaramótið í Fótbolta.