Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 108 þúsund í septembermánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Um er að ræða meira en tífalt fleiri brottfarir en í september 2020 en 41% fækkun frá sama mánuði árið 2019.

Alls voru brottfarir erlendra ferðamanna 445 þúsund talsins á fyrstu níu mánuðum ársins. Til samanburðar var fjöldinn um 1.567 þúsund á sama tímabili árið 2019.

Framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia sagði í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir mánuði síðan að nýjar reglur stjórnvalda á landamærum í lok júlí hafi sett strik í reikninginn og dregið úr eftirspurn. Hann áætlaði að fjöldi ferðamanna verði á bilinu 550-600 þúsund í ár en í byrjun sumars höfðu greiningardeildir bankanna spáð því að fjöldinn yrði um 700-800 þúsund talsins í ár.

Sjá einnig: Rétta ekki úr kútnum fyrr en 2024

Af brottförum í september voru sem Bandaríkjamenn fjölmennastir eða um 27,8% ferðamanna. Þjóðverjar fylgdu þar á eftir með 12,9% hlutdeild.

Brottfarir Íslendinga í september voru um 29 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um 5 þúsund. Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 113 þúsund eða 6,6% færri en á sama tímabili í fyrra.