Magnús Bragason, hótelstjóri á Hótel Vestmannaeyjum, segir að erlendir ferðamenn afbóki daglega gistingu á hótelinu þar sem þeir vilji ekki koma með Herjólfi úr Þorlákshöfn. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

„Það verður að fara að opna Landeyjahöfn,“ segir Magnús. Telur hann áhrif þess að Landeyjahöfn hafi verið lokuð í vetur og vor slæm fyrir ferðaþjónustufyrirtæki í Vestmannaeyjum og hótelið hafi orðið af tugmilljónatekjum vegna þessa.

Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar sem á dæluskipið Perlu, segir í samtali við Morgunblaðið að útlit sé fyrir góðar aðstæður til dýpkunar í höfninni á næstu dögum. Eru Eyjamenn bjartsýnir á að það takist að opna höfnina um miðja næstu viku.