Margt bendir til þess að erlendir ferðamenn dvelji lengur á Íslandi heldur en áður og eyði jafnframt meira. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Markaðspunktum frá Greiningardeild Arion banka .

„Kortaveltutölur Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) rötuðu í fréttirnar fyrir skemmstu m.a. undir fyrirsögninni Minni samdráttur í kortaveltu en fjölda ferðamanna. Tölurnar voru sterkari en á horfðist, aðeins 13,1% samdráttur milli ára í maí, og það þrátt fyrir 23,6% fækkun ferðamanna. Hafa ber í huga að kortaveltutölur RSV eru án flugsamganga. Það fór minna fyrir uppfærslu á tölunum, þrátt fyrir að um stór tíðindi hafi verið að ræða. Samkvæmt uppfærðum tölum dróst heildarkortavelta erlendra ferðamanna hér á landi aðeins saman um 0,7% í maímánuði, í krónum talið, eftir 4,5% aukningu í apríl. Að því gefnu að þetta sé endanleg niðurstaða um kortanotkun ferðamanna þá verður svo lítill samdráttur í maí og vöxtur í apríl að teljast mikill varnarsigur fyrir íslenska ferðaþjónustu, í ljósi þess að ferðamönnum fækkaði um 18,5% í apríl og 23,6% í maí. Meiri samdráttur mælist í maí (og allt frá febrúar sl.) ef kortaveltan er leiðrétt fyrir gengisbreytingum, enda krónan umtalsvert veikari en fyrir ári síðan," segir í Markaðspunktunum.

Jafnframt segir að það vekji athygli hvað eyðsla hvers og eins ferðamanns virðist hafa aukist mikið milli ára.

„Það var viðbúið að kortavelta á hvern ferðamann í krónum talið myndi aukast sökum gengisveikingar krónunnar, en hversu mikil aukningin virðist vera eru óvænt gleðitíðindi. Þannig ráðstafaði hver ferðamaður 28% fleiri krónum hér á landi í apríl en fyrir ári síðan og 30% fleiri krónum í maí, en kortavelta á hvern ferðamann hefur aldrei verið jafn mikil og í maí. Ekki nóg með það, þá sýna tölurnar að hver og einn ferðamaður ráðstafaði mun meiru í sinni eigin mynt en áður, þróun sem skiptir tekjusköpun þjóðarbúsins gríðarlega miklu máli. Í apríl ráðstafaði hver ferðamaður 13% meiru í eigin mynt en fyrir ári síðan og 15% meira í maí. Leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna svo mikla aukningu milli ára, en það má segja að það ár hafi verið gullvaxtarár ferðaþjónustunnar, enda fjölgaði þá erlendum ferðamönnum um 40%."