Þorsteinn Andri Haraldsson sérfræðingur á greiningardeild Arion banka segir að hertar reglur um skammtímaleigu íbúða til ferðamanna muni styrkja stöðu hótela að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Ferðamenn hafa verið að færa sig frá Airbnb-íbúðum og aftur yfir á hótelin,“ segir Þorsteinn sem segir að fjölgun hótelherbergja í borginni næstu árin muni mæta eftirspurninni.

„Samkvæmt okkar grunnspá munu um 1.500 herbergi bætast á markaðinn á næstu tveimur árum. Það svarar ágætlega þeirri þörf sem skapast með 6% fjölgun ferðamanna í ár og 2% fjölgun á næsta ári, ásamt uppsafnaðri þörf undanfarinna ára.“

Eins og sagt var frá í fréttum í gær er spáð að vöxturinn verði á næsta ári 3-5% í greininni, en miðað við efri mörkin myndi það þýða 115 þúsund ferðamenn til viðbótar við þær 2,3 milljónir sem búist er við að koma með flugi í ár. Jafnframt er bókunarstaðan betri fyrir komandi ár en var fyrir þetta ár.

Aukning um 100 þúsund ferðamenn þýðir yfir 300 þúsund gistinætur

Ólafur Torfason stjórnarformaður Íslandshótela segir að í slíkum vexti muni lítið um 100 herbergja hótel til viðbótar. Þannig myndu 125 þúsund ferðamenn sem myndu gista í fjórar nætur, einn og hálfur í hverju herbergi, þýddi það 333 þúsund gistinætur til viðbótar.

100 herbergja hótel selji til samanburðar um 36.500 gistinætur á ári, eða ef miðað er við 70% nýtingu 25.550. Þá þýðir það að til að anna viðbótareftirspurninni þyrfti að bæta við um 1.300 herbergjum á næsta ári.

„Nú eru menn að veðja á að veiking krónu gagnvart evru hafi góð áhrif á eftirspurnina. Maður vonar að gengi evru verði á þessu bili. Það yrði gott fyrir hótelin,“ segir Ólafur en félag hans er nú að byggja 125 herbergja hótel í miðbæ Reykjavíkur.

Þjóðverjar tóku Ísland af sölulistanum

Auk þess stefnir félagið að stækkun á Grand Hóteli um 130 herbergi, og yrði hótelið þá með um 440 til 450 herbergi. Loks er stefnt að stækkun Hótel Íslands í Ármúla um 200 herbergi, og City Park hótel þar rétt hjá er að fjölga úr 27 í alls 84 herbergi.

Árni Valur Sólonsson eigandi Capital Hotels sem eiga City Park hótelið segir að með harðari tökum á leyfislausri gistingu í borginni stefni á aukna eftirspurn eftir hótelum.

Hann segir að m.a. vegna umræðu um hækkun virðisaukaskatts á gistingu hafi eftirspurn fyrir árið í ár minnkað en sú þróun sé nú að ganga til baka þó hægt sé. „Sumar þýskar ferðaskrifstofur, sem skipuleggja ferðir langt fram í tímann, tóku Ísland út af sölulistanum. Það er að koma fram á árinu 2018,“ segir Árni Valur.