*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 2. júní 2020 13:40

Ferðamenn greiði kostnaðinn sjálfir

Almenn sýnataka á Keflavíkurflugvelli var samþykkt af heilbrigðisráðherra. Eðlilegt væri að ferðamenn greiddu kostnaðinn sjálfir.

Ritstjórn

Samkvæmt hagrænu mati sem unnið var að beiðni forsætisráðherra og kynnt var í ríkisstjórn í morgun yrðu efnahagslegar afleiðingar þess að viðhalda óbreyttu ástandi ferðatakmarkana gríðarlegar og rétt að draga úr þeim samhliða sóttvarnaaðgerðum.

Þá hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fallast á tillögu sóttvarnalæknis, sem fjallað var um á fundi ríkisstjórnar, um breytingu á reglum um komur ferðamanna til Íslands. Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur.

Bráðabirgðamat bendir til þess að kostnaður við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli fyrstu tvær vikurnar frá rýmkun reglna um komu ferðamanna til landsins yrði um 160 milljónir króna ef 500 manns koma til landsins á dag, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku. Stefnt er að því að tilkynna á næstu dögum hvað sýnatakan muni kosta farþega.

Ferðamenn greiði kostnaðinn sjálfir

Í skýrslunni kemur fram að ef skima á alla farþega við komu til landsins virðist hagfræðilega rétt að kostnaðurinn sé greiddur af farþegunum sjálfum. Annars gætu myndast hvatar fyrir ferðamenn að ferðast hingað til þess eins að fá próf sem virðast af skornum skammti erlendis. 

Einnig er bent á að beinar skatttekjur ríkissjóða af hverjum ferðamanni eru áætlaðar 20-25 þúsund krónur eða nokkru lægri en skimunin virðist kosta. 

Almenn skimun sem ferðamenn greiða fyrir yrði þó ígildi skattlagningar á ferðalög. Með greiðslu ferðamanna fyrir prófið má þó stuðla að því að þeir sem koma til landsins séu efnameiri ferðamenn sem eyði meiru og dvelji lengur en greiðslan fyrir prófið er hin sama óháð dvalarlengd.

Einnig þarf að horfa til þess að ríkissjóður niðurgreiði ekki samfélagslegan kostnað af utanlandsferðum Íslendinga sem virðast af reynslu síðustu mánaða hafa meiri áhrif á mögulega útbreiðslu veirunnar en komur erlendra ferðamanna og geta haft neikvæð áhrif á innlenda eftirspurn og viðskiptajöfnuð ef Íslendingar leita hraðar út en ferðamenn til landsins.  

Endurkoma veirunnar yrði mjög dýrkeypt

„Þótt ómögulegt sé að segja til um líkur á því að faraldurinn taki sig upp að nýju er rétt að árétta að efnahagsleg áhrif þess geta orðið veruleg,“ segir í skýrslunni. Áætlað er að hver mánuður af hörðum sóttvarnaraðgerðum innanlands minnki einkaneyslu hér á landi um hátt í eitt prósentustig á ársgrundvelli eða um 15 milljarða króna. 

Auk þess gæti það valdið gríðarlegum kostnaði fyrir ferðaþjónustuna og hagkerfið allt ef nauðsynlegt væri að setja ferðatakmarkanir á að nýju eftir að þær hafa verið losaðar. Það er ekki bara vegna hins beina kostnaðar sem í því felst, heldur einnig vegna þess að það myndi aftur stöðva komu ferðalanga til landsins og hugsanlega skaða orðspor Íslands sem trausts áfangastaðar næsta árið/árin.

Myndi slíkt grafa verulega undan þeim trúverðugleika sem byggður hefur verið upp á undanförnum vikum. Þessu til viðbótar er verulegur efnahagslegur kostnaður fólginn í veikindum, dauðsföllum og ýmsum samfélagslegum kostnaði sem felst í frekari hópsýkingum eða ótta við þær.