Alls leituðu 14.543 ferðamenn til heilbrigðisstofana um land allt á síðasta ári, sem er mikil fjölgun frá því sem var árið 2013 þegar þeir voru 6.390.

Greiddu ferðamennirnir alls 778 milljónir króna fyrir þjónustuna í fyrra að því er fram kemur í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson að því er sagt er frá í Morgunblaðinu í dag.

Hlutfallslega flestir á Akureyri

Hlutfallslega voru ferðamenn mest áberandi á Akureyri, þar sem þeir voru 3,9% af öllum komum á síðasta ári, og greiddu þeir um 100 milljónir fyrir þjónustuna, en næst hæst var hlutfallið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem það var 1,9% af komum.

Ef tölurnar eru skoðaðar sundurliðað, þá sést að 4.665 erlendir ferðamenn heimsóttu Landspítalanna, 3.256 ferðamenn heimsóttu heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu og 2.059 ferðamenn nýttu sér þjónustu Heilbrigðisþjónustu Suðurlands.

Flókið að mæla hópinn

Sjúkratryggingar Íslands, sem annast endurkröfur vegna veittrar þjónustu hér á landi vegna milliríkjasamninga, segja að fjöldi afgreiddra reikninga hafi aukist um 42,3% milli ára.

Fór fjöldi þeirra úr 4.444 í 6.324 en heildargreiðslur SÍ til veitenda heilbrigðisþjónustu vegna erlendra aðila hérlendis námu 516 milljónum á síðasta ári.

Voru 356 milljónir af því vegna EES samningsins og 160 milljónir vegna Norðurlandasamningsins. Erfitt reyndist að greina ferðamanahópinn eftir því hvort einstaklingar eru frá EES svæðinu eða utan þess.