Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sér jafnvel fyrir sér að ferðamenn fari að koma til landsins seinni part ágústsmánaðar að því er Morgunblaðið greinir frá. Segir hann að verið sé að skoða alvarlega ýmsar útfærslur á fjöldatakmörkunum og prófunum á ferðamönnum í stjórnkerfinu og hjá hlutaðeigandi.

„ Ef það tekst að gera tvíhliða samninga við önnur lönd um ferðalög hangir það saman við hvaða flugsamgöngur eru þá í boði,“ segir Jóhannes Þór. „Við horfum ekki síst til ferðamanna sem eiga bókaðar ferðir til Íslands í lok ágúst og í haust og hafa ekki afbókað.“

Í mörgum Evrópulöndum virðist kórónuveirufaraldurinn sem valdið hefur stöðvun flugsamgangna víða um heim mikið til gengið niður að því er blaðið fjallar jafnframt um, með mikilli fækkun skráðra smita í Eystrasaltslöndunum, Austurríki, Noregi, Slóveníu, Slóvakíu og Króatíu sem og nokkur lækkun í Sviss, Lúxemborg og Finnlandi.

Hins vegar virðist sem tveir stærstu markaðir fyrir ferðamennsku til Íslands, Bandaríkin og Bretland, verði lokaðir mestallt árið að óbreyttu. Jóhannes Þór segir mögulegt að settar verði samevrópskar reglur um „sóttkvíarferðamennsku“ þar sem hópar sem komi verði í litlu samneyti við aðra á ferðum sínum.

„Nú eða að fólk taki einhvers konar próf áður en það fer, eða eftir að það kemur, eða eitthvað slíkt. Það eru ýmsar útfærslur á því. Ég held að veröldin hafi ekki komið sér niður á eina lausn í því samhengi. Það er líklegt að það verði ekki séríslensk lausn, heldur í tengslum við tvíhliða samkomulag við önnur lönd.“