*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 21. október 2019 18:19

Ferðamenn látnir labba lengra

Með lokun rútustæðis sem opnaði 2016 við Þjóðmenningarhúsið þurfa ferðamann að ganga allt að kílómetra í gistingu.

Ritstjórn
Kristofer Oliversson er formaður FHG, félags fyrirtækja í Hótel og gistiþjónustu.
Haraldur Guðjónsson

Kristófer Oliversson formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu segir alvarlegt mál að nú hyggist Reykjavíkurborg loka safnstæði við gamla Þjóðmenningarhúsið og bílastæðahúsið þar gengt á Hverfisgötu að því er Morgunblaðið greinir frá. Meirihlutinn í borginni er myndaður af VG, Pírötum og Viðreisn undir forystu oddvita Samfylkingar, Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Segir hann að nú séu rekstraraðilar á svæðinu að vakna upp við vondan draum eftir margra mánaða framkvæmdir sem hafi lokað svæðinu að borgin hefur nú ákveðið að opna ekki stæðið á ný. FHG hefur ályktað um málið og segir það „algerlega óboðlegt að loka safnstæðum bæði á Laugavegi og nú á Hverfisgötu“, en þess í stað séu eingöngu Skúlagata og Lækjargata valkostir til að skila af sér og sækja ferðamenn.

Það er jafnframt sagt ekki í anda íslenskrar gestrisni að gera til að mynda eldra fólki „að klöngrast með farangur sinn síðla kvölds upp bratta stíga allt að einum kílómetra til að komast í gistingu eftir langt og strangt ferðalag“.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um sumarið 2016, voru safnstæðin tekin upp til að takmarka ágang fólkflutningabíla ýmis konar að og frá hótelum og gististöðum í miðborginni. Var þá ákveðið að setja upp 12 gjaldskyld rútustæði en það sem er hvað næst Þingholtunu hefur auk stæðisins við Lækjartorg verið stæðið á Hverfisgötunni, en núna hefur verið ákveðið að það verði framvegis við Skúlagötu númer 14.

Kristófer segir málið alvarlegt og segir borgin smátt og smátt vera að ýta rútunum í burtu þó hann hafi haldið að það væri þokkaleg sátt um Hverfisgötuna. „Borgaryfirvöld ganga enn og aftur of hart fram í því að hindra aðgang ferðamanna að miðborginni,“ segir Kristófer sem tekur undir að breytingin endurspegli skort á gestrisni.

„Vaxandi fjöldi gesta er eldra fólk, það er þróunin um allan heim. Þetta eru langar leiðir að fara í myrkri yfir veturinn, annars vegar þegar fólk kemur og hins vegar að senda fólk blautt og hrakið í flug eftir að hafa gengið langar leiðir og beðið eftir rútu á berangri í öllum veðrum.“

Segir Kristófer það skrýtið að draga úr þjónustunni og gera gestum erfiðara fyrir á sama tíma og það sé að kólna í ferðaþjónustunni. Félagið sé þó að reyna að fá ákvörðuninni breytt með samtali við embættismenn og næst stjórnmálamenn en stefna borgarinnar er enn sem komið er að loka stæðinu sem er hvað næst miðborginni. „Við vonum að við fáum einhvern skilning á því að þarna eru menn ekki á réttri leið.“