Á árunum 2017 til 2019 spáir greiningardeild Arion banka að heildarfjöldi ferðamanna sem komi til landsins verði 7,5 milljónir.

Skortur á hótelum og mannafla

Strax á fyrsta fjórðungi næsta árs sprengi ferðamannastraumurinn utan af sér uppbygginguna í hótelum og flöskuháls í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli verði skortur á mannafla.

Gera þeir ráð fyrir að fyrir hverja eitt til tvö þúsund ferðamenn þurfi eitt stöðugildi á vellinum, en á fáum árum hefur atvinnuleysi sem var hvað mest á Suðurnesjum nú nálega horfið.

Vanáætluðu fjölgunina

Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi í Arion banka í morgun, þar sem þeir viðurkenndu að hafa vanáætlað fjölgun ferðamanna síðustu ár.

Meðalfjöldi einstaklinga á landinu á hverjum tíma hefur aukist og mun halda áfram að aukast samkvæmt þeirra spá um 13% frá 2015 til ársins 2019, eða sem nemur 10.600 manns á ári 2016 til 2019. Eftirspurnin sem af þessu kemur jafngildir hraðari fólksfjöldaþróun í landinu.