*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 11. maí 2018 12:15

Ferðamönnum fækkar í fyrsta sinn í 8 ár

Í apríl fóru 4% færri erlendir farþegar frá Keflavíkurflugvelli en á sama tíma í fyrra. Ferðamönnum hefur ekki fækkað milli ára síðan 2010.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í frétt á vef Túrista segir að erlendum farþegum sem fóru frá Keflavíkurflugvelli hafi fækkað milli ára í fyrsta skipti frá árinu 2010. „Í heildina flugu 147.551 útlendingar frá landinu í apríl eða sex þúsund færri en í fyrra. Þar sem fólk er talið á leið frá landinu þá valda páskarnir ekki skekkju í apríltölunum að þessu sinni,“ segir í frétt Túrista.

Þar segir jafnframt að þróunin sé ekki í samræmi við spár fyrir árið. Í töflu sem Túristi tók saman sést að samdrátturinn nær til flestra hópa ferðamanna á Íslandi, en veruleg fjölgun er í hópi Pólverja. Þó er talið að þar sé um að ræða Pólverja sem eru búsettir á Íslandi. Mest fækkar brottförum kínverskra ferðamanna, um tæp 31%, þvínæst hollenskra um rúm 25% og Breta um tæp 18%. Helst er fjölgun meðal Spánverja og Rússa auk Pólverja, en tæp 74% fjölgun varð á brottförum þeirra milli ára.

Stikkorð: Ferðaþjónusta