*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 12. júlí 2019 13:22

Ferðamönnum fækkar um 19,2%

Fjöldi erlendra ferðamanna um Leifsstöð nam tæplega 442 þúsund manns á öðrum ársfjórðungi borið saman við 547 þúsund á sama fjórðungi í fyrra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjöldi erlendra ferðamanna um Leifsstöð nam tæplega 442 þúsund manns á öðrum ársfjórðungi borið saman við 547 þúsund á sama fjórðungi í fyrra. Ferðamönnum fækkaði því um 105 þúsund eða 19,2%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans

Þetta er mun meiri fækkun en á fyrsta fjórðungi þegar hún nam 4,7%. Meiri fækkun á öðrum fjórðungi skýrist af brotthvarfi Wow air sem fór í þrot í lok mars. Á fyrri árshelmingi fækkaði ferðamönnum um 12,4%," segir í Hagsjánni. 

Bandaríkjamenn skýra mest af fækkuninni á fjórðungnum

Bandaríkjamenn skýra langmest af heildarfækkun erlendra ferðamanna á öðrum ársfjórðungi en tæplega 60% af heildarfækkun erlendra ferðamanna má skýra með fækkun Bandaríkjamanna.

Sé einungis horft á fækkun erlendra ferðamanna án Bandaríkjamanna nam hún 11,7% á öðrum fjórðungi. Bandaríkjamönnum hefur fjölgað mun meira á síðustu árum en sem nemur fjölgun annarra ferðamanna og hefur það aukið verulega vægi Bandaríkjamanna í heildarfjölda ferðamanna en 3 af hverjum 10 erlendu ferðamönnum sem sóttu landið heim í fyrra komu frá Bandaríkjunum. Hlutfall Bandaríkjamanna af heildarfjölda ferðamanna nam 26,8% á öðrum fjórðungi og þarf að fara aftur til annars fjórðungs 2010 til að finna lægra hlutfall en þá var það einungis ögn lægra eða 26,7%. Árið 2015 var hlutfallið 21,6%."