*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Innlent 7. janúar 2019 16:44

Ferðamönnum fjölgaði um 5,5% árið 2018

Fjölgun ferðamanna á síðasta ári nam um þriðjungi þjóðarinnar, mest í byrjun og lok sumars. Áður allt að 40% aukning.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Brottfarir erlendra farþegafrá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2,3 milljónir árið 2018 eða um 120.600 fleiri en árið 2017, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukning milli ára nemur 5,5%, en flestir skiptifarþegar sem fara í gegnum Keflavíkurflugvöll á leið sinni yfir hafið eru ekki inni í þessum tölum.

Fjölgunin milli ára er þó minni en undanfarin ár en hún var á bilinu 24,1% til 40,1% milli ára á tímabilinu 2013-2017.
Af einstaka markaðssvæðum voru brottfarir Norður-Ameríkana flestar eða um 794 þúsundir talsins og var mest fjölgun þaðan eða um 115 þúsundir.

Fjölgun var í brottförum erlendra farþega milli ára 2017 til 2018 alla mánuði ársins nema í apríl. Fjölgunin var hlutfallslega mest í maí og september eða um 13% en minnst í mars, júlí, ágúst, nóvember og desember eða á bilinu 1,5% til 3,7%.

Sé litið lengra aftur í tímann má sjá að brottfarir hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2014 en þá voru þær um 969 þúsund talsins. Á tímabilinu 2013 til 2018 hefur aukning milli ára verið að jafnaði 24,8%, mest frá 2015 til 2016 eða 40,1%.

Könum fjölgar um fimmtung

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir árið 2018 tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 695 þúsundir talsins. Um er að ræða 20,5% fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2017. Brottfarir Breta komu þar á eftir en þær mældust um 298 þúsundir árið 2018 og voru 24.600 færri en 2017. Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna og Breta 42,9% af heildarbrottförum.

Brottfarir Þjóðverja á árinu 2018 voru í þriðja sæti, um 139 þúsundir talsins, eða 6,0% af heild og fækkaði þeim um 10,7% milli ára. Brottfarir Kanadamanna voru í fjórða sæti, um 100 þúsundir talsins, eða 4,3% af heild og fækkaði þeim jafnframt eða um 3,2% milli ára, sem og brottförum Frakka sem voru 3,1% færri en árið áður en þeir voru 97 þúsund talsins árið 2018, eða 4,2% af heild.

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (3,9% af heild), Kínverja (3,9% af heild), Spánverja (2,8% af heild), Dana (2,2% af heild), Svía (2,1% af heild), Ítala (2,0% af heild) og Hollendinga (1,9% af heild).

Mest fjölgun sínum hvorum megin við sumarið

Aukning var í brottförum erlendra farþega milli ára 2017 til 2018 ellefu mánuði ársins. Þannig fjölgaði brottförum yfir 10% tvo mánuði ársins 2018 eða í maí og september og á bilinu 5-10% fjóra mánuði eða í janúar, febrúar, júní og október.

Fjölgunin milli ára 2017 til 2018 var innan við 5%, fimm mánuði ársins eða í mars, júlí, ágúst, nóvember og desember. Brottförum fækkaði einungis í aprílmánuði milli ára, voru 3,9% færri árið 2018 en 2017.