Hvert metið á fætur öðru var slegið í ferðamennskunni síðasta vetur. Sé litið til tímabilsins nóvember til mars var umferð farþega um Keflavíkurflugvöll 32,5 prósentum meiri heldur en á sama tímabili 2014-2015. Farþegum yfir veturinn hefur ekki fjölgað jafn mikið milli ára svo langt sem tölur Isavia ná. Gistinóttum útlendinga á íslenskum hótelum fjölgaði um 36,9% milli vetra. Þær voru jafn margar í mars síðastliðnum eins og í júní á síðasta ári.

Kortavelta útlendinga á Íslandi er gjarna notuð sem mælikvarði á umfang tekna ferðaþjónustunnar, og á þann mælikvarða var síðasti vetur litlu minni en síðasta sumar í íslensku ferðaþjónustunni. Á tímabilinu frá júní fram í ágúst í fyrra námu úttektir af erlendum greiðslukortum 100 milljörðum króna, en á tímabilinu frá nóvember fram í mars námu úttektirnar 93 milljörðum. Þær voru 58% meiri en veturinn 2014-2015.

Í janúar hafði hótelum á Íslandi fjölgað um átján á einu ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hótelherbergjum fjölgaði um 1.352 á sama tímabili. Ný hótelherbergi voru 20% fleiri en nýjar íbúðir í íbúðahúsum árið 2015, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Bretar og Bandaríkjamenn í meirihluta

Viðmælendur Viðskiptablaðsins innan ferðaþjónustunnar benda gjarna á að beint samhengi sé á milli fjölda ferðamanna og framboðs flugferða. Ferðamönnum frá Bretlandi og Bandaríkjunum – þeim löndum þar sem framboð flugferða til Íslands hefur aukist hvað mest – fjölgaði um 46% milli vetra. Ferðamenn frá þessum tveimur löndum voru meira en helmingur allra ferðamanna sem komu til Íslands síðasta vetur.

Þá fór fjöldi ferðamanna frá Kína langt með að tvöfaldast á milli vetra, og ferðamönnum frá Japan fjölgaði um 31 prósent.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .