Alls fóru 34.333 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifstöð í apríl mánuði og er það í fyrsta skipti frá upphafi sem meira en 30 þúsund ferðamenn yfirgefa landið í apríl. Aukningin nemur um 40% á milli ára sem þó skýrist að miklu leyti af því að í apríl í fyrra lá flug mikið niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu en þar segir að árin 2007 og 2009 hafi um 28 þúsund ferðamenn yfirgefið landið í apríl.

Flestir komu ferðamennirnir frá Bretlandi, um 20,8%, en um 11% þeirra komu frá Bandaríkjunum. Tæplega 10% ferðamanna voru Danir og önnur 10% voru Norðmenn.

Það sem af er ári hafa um 104 þúsund ferðamenn sótt landið heim og er það fjölgun um 15.500 frá sama tímabili í fyrra. Brottförum Íslendinga fjölgaði um 50% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og um 20% á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.