Frá áramótum hafa 125.333 erlendir ferðamenn farið frá landinu sem er 20,4% aukning frá árinu áður. Tæplega helmingsaukning (45,9%) hefur verið í brottförum Breta, ríflega fjórðungsaukning (27,7%) í brottförum N-Ameríkana og um fimmtungsaukning (21,8%) frá öðrum löndum.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu. Þar kemur einnig fram að brottförum Norðurlandabúa hefur fjölgað um 8% en fjöldi Mið- og S-Evrópubúa hefur hins vegar staðið í stað.

Ef einungis er horft til aprílmánaðar þá jókst fjöldi ferðamanna um 16,5% á milli ára. Fram kemur að á því ellefu ára tímabili sem Ferðamálastofa hefur talið ferðamenn í Leifsstöð hefur aukningin verið að jafnaði 8,2% milli ára í mánuðinum. Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í apríl frá Bretlandi eða 22,4% af heildarfjölda. Næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 11,8% og Norðmenn, 10,3%.

Sjá nánar á vef Ferðamálastofu.