Tæplega 72 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í apríl síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 12.400 fleiri en í apríl á síðasta ári. Aukningin nemur 20,9% milli ára. Kemur þetta fram á vefsíðu Ferðamálastofu. Það sem af er ári hafa 288.700 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 64.200 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 28,6% aukningu milli ára.

Aukning hefur verið milli ára alla mánuði frá áramótum eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar og 26,8% í mars.

Ferðamenn í aprílmánuði hafa nærri fjórfaldast frá árinu 2002. Oftast hefur verið um aukningu að ræða milli ára en mest hefur hún þó verið síðustu fjögur árin. Þannig hafa ferðamenn meira en tvöfaldast í aprílmánuði frá árinu 2011.