Ferðaþjónustan í Grikklandi skapar 15-20% af tekjum landsins og fimmti hver vinnandi maður starfar við þjónustu við ferðamenn.

Grískir ferðaþjónustuaðilar voru bjartsýnir fyrir ferðaárið 2012. En það hefur breyst. Dregið hefur úr fyirfram bókunum um 15% milli ára. Seðlabanki Grikklands gaf út hagtölur í á föstudag sem sýndu að tekjur af ferðamönnum á fyrsta ársfjórðungi höfðu dregist saman um 15% milli ára.

Í fyrra komu 16,4 milljónir ferðamanna til landsins. Nú er gert ráð fyrir 1,5 milljónum færri ferðamönnum í ár. Það er þungt högg fyrir ferðaþjónustuna, starfsfólk og galtómann ríkissjóð landsins.

Skýringarnar á samdrættinum eru eflaust margar. Sumir segja að fólk sé hrætt við að koma til Grikklands vegna fréttamynda frá uppþotunum í landinu í vor og í fyrra. Margir ferðamenn koma frá Bretlandi og öðrum ríkjum utan evrusamstarfsins og því getur gengi evrunnar einnig fælt frá.

Hótelhaldarar hafa lækkað verðið um 20-25% á síðustu tveimur árum til að gera landið samkeppnishæft við Tyrkland og Spán en þangað fara þýskir ferðamenn í auknum mæli.