Í lok febrúar var búinn að vera samdráttur í 26 mánuði í röð. Mars stefndi í að verða fyrsti mánuður til að skila vexti en síðan kom Covid,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. „Svo var rosalegur samdráttur í apríl og maí, um 70% samdráttur í báðum mánuðum samanborið við sömu mánuði í fyrra og 60% samdráttur í júní.“

Fjöldi nýskráðra bifreiða hjá Samgöngustofu hefur dregist verulega saman á síðustu þremur árum og er meira en þrefalt lægri í ár samanborið við árið 2017.

„Við sjáum þó að byrjun júlí byrjar í plús samanborið við sama mánuð í fyrra. Það er eins og markaðurinn fyrir nýja bíla hafi náð botni um síðustu mánaðamót. Þetta gæti mögulega verið að snúast upp á við nema ef það kemur eitthvað bakslag,“ segir Egill.

Nýskráningar bíla - fyrstu sex mánuðir 2016-2020
Nýskráningar bíla - fyrstu sex mánuðir 2016-2020

Hann segir að samdráttarskeiðið hafi þá varað í 28-29 mánuði. „Það er sjaldan sem samdráttarskeið vara svona lengi en þá byrjar að safnast upp þörf.“ Það séu vísbendingar um að sala á næstu mánuðum gæti orðið betri.

Mikill áhugi á notuðum bílum

Egill segir að áhrif takmarkana á ferðalögum erlendis hafi birst hvað sterkast í sölu á notuðum bílum. „Það var fljótlega eftir 4. maí, þegar byrjað var að aflétta takmörkunum að fólk fór að streyma að til að kaupa notaða bíla. Maí og júní voru stærstu mánuðir í sögu Brimborgar í sölu notaðra bíla.“

Egill telur þrjár ástæður liggja að baki eftirspurnarinnar eftir notuðum bílum. Hann segir að margir hafi sóst eftir betri bíl til að ferðast innanlands, t.d. til að draga ferðavagn. Í öðru lagi hafi peningur sem hefði mögulega annars farið í utanlandsferðir verið nýttur í útborganir á bílakaupum. Í þriðja lagi eru vextir sögulega lágir, sem hjálpi einnig markaðnum fyrir nýja bíla. Á mótikemur hafi krónan veikst töluvert upp á síðkastið sem letur fólk til bílakaupa, sérstaklega á nýjum bílum.

Kaupir betri bíla en áður

Guðfinnur Halldórsson, eigandi Bílasölu Guðfinns, tekur í sama streng og segir að sala á notuðum bílum hafi gengið mjög vel á undanförnum mánuðum. „Einu áhyggjurnar sem við höfum fyrir framtíðina er minnkandi framboð af notuðum bílum.“

Hann segir að fólk hafi verið að kaupa sér nýlega og góða notaða bíla. Guðfinnur, sem hefur starfað við bílasölu í 51 ár, telur að fólk treysti sér kannski ekki í nýja bíla þó svo að verð á þeim hafi ekki hækkað hlutfallslega jafn mikið og hann hafði gert ráð fyrir miðað við gengi krónunnar.

Sala bílasölunnar hökti aðeins í mars en undanfarnir þrír mánuðir hafi verið mjög góðir og júní einn af betri mánuðunum Bílasölunnar.

„Þetta sumar ætlar að verða betra en síðasta sumar. Það er aukning í sölu og fólk er að kaupa dýrari bíla. Þar spila inn í betri vaxtakjör. Fólk er bara skynsamt, það vill bara vera á góðum bílum og njóta þess að vera til innanlands,“ bætir Guðfinnur við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .