Ferðaskrifstofa Íslands tapaði 67,2 milljónum króna árið 2012 sem er aðeins betri niðurstaða en árið 2011 þegar félagið skilaði 84,5 milljóna króna tapi.

Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var sendur inn til ársreikningaskrár fyrir skömmu. Ferðaskrifstofan er í eigu Pálma Haraldssonar í gegnum eignarhaldsfélagið Academy S.a.r.l. sem er skráð í Lúxemborg.

Pálmi setti félagið á sölu fyrr á þessu ári en hætt var við söluna eftir lítinn áhuga fjárfesta. Félagið rekur ferðaskrifstofur undir nöfnunum Sumarferðir, Úrval Útsýn og Plúsferðir.

Félagið keypti á árinu 2012 dönsku ferðaskrifstofuna Hekla Travel A/S sem rekur einnig dótturfélögin Hekla Travel AB og Hekla Resor AB í Svíþjóð.