*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Erlent 16. september 2020 18:41

Ferðaskrifstofan Thomas Cook endurreist

Bresk ferðaskrifstofa þar sem störfuðu um 9 þúsund starfsmenn endurreist með kínverskum bakhjarli og 50 starfsmönnum.

Ritstjórn
Ferðaskrifstofan Thomas Cook starfrækti stóran flugflota á sínum tíma.
epa

Ári eftir að hin 178 ára gamla breska ferðaskrifstofa Thomas Cook lagði upp laupana hefur fyrirtækið verið endurreist með stuðning kínverskra fjárfesta.

Ný heimasíða félagsins mun til að byrja með selja ferðalög á sumardvalastaði á ströndum sem og borgir sem bresk stjórnvöld hafa opnað á ferðalög til, þar á meðal til Tyrklands, Ítalíu og hluta Grikklands.

Félagið hyggst síðar bæta við áfangastöðum en Alan French framkvæmdastjóri félagsins segir félagið vera að byggja upp til langrar framtíðar.

„Við erum að koma starfseminni af stað núna en áttum okkur mjög vel á þeim skammtímaáskorunum sem heimsfaraldurinn veldur,“ hefur Guardian eftir framkvæmdastjóranum.

„Við vitum að Bretar eru áhyggjufullir vegna öryggis og breyttra reglna frá stjórnvöldum um sóttkví. Við erum einungis að selja til áfangastaða á lista stjórnvalda og öll hótelin bjóða sveigjanleika. Við munum ekki rukka aukagjald ef viðskiptavinir þurfa að breyta áætlunum sínum vegna breyttra reglna frá stjórnvöldum.“

Bakhjarl endurreista fyrirtækisins er kínverska fyrirtækið Fosun Tourism Group sem keypti vörumerki og netsíður félagsins í nóvember síðastliðnum á 11 milljón sterlingspund, sem samsvarar í dag 1,9 milljörðum íslenskra króna. Fosun Tourism Group hafði komið að vinnu við endurreisn breska félagsins síðasta sumar, en þá var það núþegar stærsti hluthafinn í því

Á sínum tíma starfrækti Thomas Cook Group um 560 ferðaskrifstofur víða um Bretlandseyjar auk flugflota, en hjá félaginu störfuðu um 9.000 manns á sínum tíma. Nýja fyrirtækið er með 50 starfsmenn sem vinna í fjarvinnu.

„Við erum ekki lengur með rútur og starfsmenn með smelluspjöld við laugarnar. Við teljum að fólk vilji hanna sínar eigin ferðir þessa dagana,“ segir talsmaður félagsins.

Vonir félagsins eru til þess að ná til um 50 þúsund farþega á ári hverju, en á sama tíma er hópur fyrrum starfsmanna að stofna ferðaskrifstofuna Sunny Heart Travel.

Hér má sjá eldri fréttir um ferðaskrifstofuna Thomas Cook: