Travelco, nýtt eignarhaldsfélag í meirihlutaeigu Andra Más Ingólfssonar, hefur keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group, og tekið yfir skuldir við Arion banka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um málið.

Í kjölfar lokunar Primera Air töpuðu ferðaskrifstofur Primera Travel Group háum fjárhæðum vegna fluga sem greidd höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flogin.

Í tilkynningunni segir að kaupa hafi þurft önnur flug fyrirvaralaust, til að vernda farþega fyrirtækjanna. Til að tryggja rekstur ferðaskrifstofanna hafi nýtt eignarhaldsfélag verið stofnað með milljarð í nýju hlutafé, sem að stórum hluta hafi nú þegar verið greitt inn.

Rekstur allra fyrirtækjanna hafi nú verið fluttur undir Travelco Nordic A/S í Danmörku, sem hét áður Primera Travel A/S, en það félag haldi áfram óbreyttum rekstri. Öll félögin séu færð undir það félag til að einfalda félagið og styrkja eigið fé þess „eftir þessi miklu áföll,“. Félagið standi við allar skuldbindingar sínar gagnvart öllu starfsfólki og birgjum og haldi áfram rekstri allra ferðaskrifstofanna óbreyttum.