Inga Birna Ragnarsdóttir tók nýlega við sem framkvæmdastjóri hjá vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos. Fyrirtækið hefur verið starfandi í fjögur ár og var stofnað af Guðmundi Bjarna Sigurðssyni. Stuttu seinna gekk Kristján Gunnarsson til liðs við hann, en fyrirtækið hefur farið ört stækkandi og eru starfsmennirnir nú tólf talsins.

Spurð hvaða verkefni séu fram undan í nýja starfinu segir Inga Birna að þau séu mörg. „Í sumar bættist bandaríska fyrirtækið Ueno LLC. í hóp eigenda fyrirtækisins, svo núna erum við líka að horfa á verkefni út fyrir landssteinana og byrjuð að feta okkur á þeirri braut. En við vinnum auðvitað mikið á innlendum markaði og erum með mörg stór verkefni þar.“

Inga Birna er ógift en á tvær stelpur. „Önnur er þrettán ára en hin sautján. Ég er fædd og uppalin í Keflavík en flutti þaðan 19 ára gömul, við búum núna í Kópavogi og líkar vel.“ En hvað brallar Inga þegar hún er ekki framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos? „Mín áhugamál utan vinnu eru aðallega skíðamennska og golf, svo ferðast ég mjög mikið bæði með vinum og fjölskyldu. Við stelpurnar förum líka reglulega til Akureyrar og stundum Bláfjöll mjög mikið yfir vetrartímann.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .