Gjaldeyristekjur hafa vaxið hraðar en flestir hagvísar eða um rösklega 60% frá árinu 2010. Því kemur í raun ekki á óvart að nú stefnir í að gjaldeyristekjur á þessu ári af þjónustu, sem verða á bilinu 600 til 610 milljarðar, verði í fyrsta sinn í sögu Íslands meiri en tekjur af vöruútflutningi. En þar dregur ferðaþjónustan vagninn. Þetta kemur fram í Hitamælinum, sem er hluti af fréttablaði Samtaka ferðaþjónustunnar .

„Á árinu 2009 var vægi ferðaþjónustu í þjónustuútflutningi um 47% en gera má ráð fyrir að hlutfallið verði 76% í ár. Þá er það líka tákn um nýja tíma í hagsögunni að það sé afgangur á viðskiptajöfnuði, 8 ár í röð – þrátt fyrir halla á vöruskiptajöfnuði,“ segir meðal annars í Hitamælinum.

Nú stefnir í það að gjaldeyristekjur íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu verði um 450 til 460 milljarðar. „Um 300 milljarðar kr. vegna neyslu erlendra ferðamanna innanlands og um 150-160 milljarðar kr. vegna sölu á fargjöldum til erlendra ferðamanna til, um og utan Íslands,“ er tekið fram.

Útflutningur vs. þjónustuútflutningur
Útflutningur vs. þjónustuútflutningur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Metár í ferðaþjónustu

Nú stefnir allt í að enn annað metárið verði í ferðaþjónustu landsins. Miðað við upplýsingar SAF þá er gert ráð fyrir því að 1,8 milljón ferðamanna komi til landsins á árinu og verði því rúmlega 40% fleiri en í fyrra.