Bjartsýni er fyrir komandi ári í ferðaþjónustunni. Til marks um það kynnti Isavia farþegaspá sína nú á dögunum fyrir árið 2023. Þar spáir Isavia að 2,2 milljónir ferðamanna komi til Íslands á árinu, en aðeins einu sinni hafa fleiri komið til landsins á einu ári eða 2,3 milljónir metárið 2018.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, tekur undir spá Isavia þrátt fyrir fjölmarga óvissuþætti.

„Stríðið í Úkraínu, verðhækkanir á mörkuðum, orkukrísan sem fylgir ástandinu og sögulega háar verðbólgutölur í Evrópu veldur allt óvissu á mörkuðum. Ég held samt sem áður að við getum búist við fjölgun ferðamanna á næsta ári um 3-400 þúsund manns. Ég tel að á bilinu 2 til 2,2 milljónir ferðamanna muni heimsækja landið á næsta ári.“

Hann telur að það muni róast í greininni á næstu árum meðal annars vegna samkeppni um starfsfólk.

„Það er enn mikil ferðaþrá á markaðnum eftir faraldurinn, sem mun væntanlega hægja á með tímanum. Við erum líka að glíma við ýmis mál á framboðshliðinni hér innanlands sem við eigum eftir að vinna almennilega úr. Það vantar starfsfólk og samkeppni um að fá fólk erlendis frá er talsvert meiri en hún var fyrir faraldur. Þá eru fyrirtækin enn að berjast út úr skuldastöðunni sem jókst í faraldrinum. Það leiðir til þess að almenn uppbygging fyrirtækjanna tefst og afkastageta þeirra getur ekki farið eins hratt upp eins og annars hefði verið. Það þarf því að hafa í huga að þótt eftirspurnin sé góð, takmarkast hún af afkastagetunni.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.