Fólki sem starfar við ferðaþjónustu og tengdar greinar fjölgaði um 2.700 í fyrra. Í heild sinni fjölgaði starfandi um 2.800 á tímabilinu. Þetta kemur fram í greiningu Ólafs Más Sigurðssonar, sérfræðings hjá Hagstofu Íslands, sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.

Þannig eru vísbendingar um að vöxtur ferðaþjónustunnar sé að baki nær allri fjölgun starfandi fólks á síðasta ári. Kemur vöxturinn líklega skýrast fram í því að um 12 þúsund störfuðu við rekstur gististaða og veitingahúsa í árslok 2014 og var greinin þá orðin fjölmennari en byggingageirinn og jafnframt sú fimmta stærsta á landinu miðað við fjölda starfsfólks.