Rekstraraðilar í ferðaþjónustu bíða átekta og vona það besta hvað COVID -19 veiruna varðar. Hópar frá Asíu hafa afbókað ferðir en einstaklingar skila sér áfram. Formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu segir lán í óláni fyrir greinina að veiran hafi skotið upp kollinum á þessum tíma árs. Í dag sendi celandair Group tilkynningu til Kauphallarinnar , þar sem fram kemur að mánaðargömul afkomuspá sé ekki lengur í gildi og ómögulegt sé að gefa út áreiðanlega spá.

Í byrjun þessa árs fóru að berast fregnir utan úr heimi af útbreiðslu kórónuveirunnar COVID -19. Fyrstu tilfelli hennar gerðu vart við sig undir lok síðasta árs en alvarleiki málsins lá ekki ljós fyrir strax í upphafi. Þegar þetta er ritað hafa hátt í 80 þúsund smitast af veirunni og yfir um þrjú þúsund látist. Hlutfall látinna er áberandi hæst hjá þeim er náð hafa yfir sextugt.

Undir lok síðasta mánaðar hófu yfirvöld í Kína að grípa til aðgerða til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins en um sama leyti fögnuðu Kínverjar nýju ári hjá sér. Rekstraraðilar í ferðaþjónustu merktu hjá sér afbókanir ferðalanga frá Asíu um þetta bil. Undanfarið hefur síðan verið sagt frá smitum á Ítalíu, Bretlandi, Þýskalandi og víðar en áhrifin vegna þess virðast minni háttar, Í það minnsta enn sem komið er.

„Það sem við höfum merkt eru fyrst og fremst Asíuáhrifin en þau komu fram mjög hratt eftir að ferðatakmörkunum var komið á í Kína. Þá duttu út hópabókanir fyrir febrúar, mars og eitthvað inn í apríl. Áhrifin hér á landi eru að sjálfsögðu misjöfn eftir því hve mikið fyrirtækin eru að vinna á þeim markaði,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Sem kunnugt er þá er háannatími í ferðaþjónustunni yfir sumarmánuðina en enn er óvíst hvaða áhrif, ef einhver, sjúkdómurinn mun hafa á þá vertíð. Undanfarnar vikur hafa verið fluttar fregnir af því að óværan hafi skotið upp kolli á fleiri stöðum, til að mynda á Ítalíu, í Þýskalandi og Bretlandi, og eðli málsins samkvæmt óljóst hve mörg smit verða þar.

„Hingað til hafa mér þótt viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vera skynsamleg. Við verðum að bíða átekta og sjá hver útbreiðslan verður í Evrópu og Bandaríkjunum og þá einnig hver viðbrögðin verða. Það mun skýra ferðahegðunina í sumar yfir háannatímabilið,“ segir Jóhannes.

Sérstakur viðbragðshópur vegna veirunnar hefur verið settur saman hér á landi. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um hvaða aðgerða sé hægt að grípa til til að takmarka líkurnar á smiti en fólk hefur meðal annars verið hvatt til þess að takmarka óþarfa snertingu við aðra og huga vel að handþvotti.

„Við fáum þær upplýsingar sem á þarf að halda hvað ferðaþjónustuna áhrærir og miðlum þeim áfram til okkar félagsmanna. Það er það sem við getum gert til að vera með vel undirbúin heimaviðbrögð og erum við í góðu samstarfi við Embætti landlæknis hvað það varðar. Útbreiðsla veirunnar á heimsvísu er síðan hinn þátturinn og þar getum við lítið annað en beðið og séð hvernig málin þróast,“ segir Jóhannes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .