Rætist spár um 15% árlegan vöxt i ferðaþjónustu út þennan áratug mun það hafa mikla efnhagslega þýðingu og gera greinina að leiðandi atvinnuvegi í landinu. Án þessa vaxtar yrðu hagvaxtarhorfur mun lakari.

Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag og vísar blaðið í orð Ingólfs Benders, forstöðumanns Greiningar Íslandsbanka. Hann segir greinina vera orðna leiðandi grein í sköpun gjaldeyristekna.

„Ferðaþjónustan er orðin lykilgrein í íslenska hagkerfinu og sú grein sem leiðir hagvöxt. Við sjáum á nýjum tölum um hagvöxt að ferðaþjónustan knýr áfram vöxtinn. Ef spár um 15% árlegan vöxt ferðaþjónustunnar fram til 2020 rætast yrðu það stórtíðindi fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Ingólfur við Morgunblaðið.