Jóhannes Þór Skúlason, sem tók við framkvæmdastjórn Samtaka ferðaþjónustunnar eftir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar, segir skort á samráði við ferðaþjónustuna hafa skapað vandamál og fagnar heildarkönnun á gjaldtöku á ferðaþjónustuna í landinu. Hann óttast skyndihugdettur stjórnvalda um gjaldtöku sem klípi sífellt meira af rekstrinum.

Jóhannes Þór starfaði áður sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrst þegar hann var forsætisráðherra og síðar þegar hann var orðinn formaður Miðflokksins. Spurður hvort allar óskir ferðaþjónustunnar rætist ef Sigmundur Davíð kemst aftur í ríkisstjórn hlær hann við.

„Spurðu hann að því, mín reynsla er sú að þetta virkar ekki alveg þannig, en það er vissulega gott að þekkja vel til í þessum heimi. Það er auðvitað svolítið sérstakt að hafa verið í starfi sem er mjög pólítískt í nokkur ár og vera svo kominn í starf sem að segja má að sé hinum megin við borðið. En ég hef fundið strax fyrir því að fyrir fulltrúa hagsmunasamtaka atvinnugreinar sem þarf að hafa mikil samskipti við stjórnvöld og stjórnmálin að það er mjög góð reynsla að þekkja hvernig stjórnmálin og stjórnkerfið virka,“ segir Jóhannes Þór.

„Eðli starfs í hagsmunasamtökum er þannig að maður getur ekki leyft sér að vera í einhverri pólitík. Framkvæmdastjóri SAF er fulltrúi allra sem starfa innan samtakanna og þarf að eiga góð samskipti við alla í stjórnmálunum, sama hvar í flokki þeir eru. Mér hefur blessunarlega tekist það ágætlega enda er gott fólk í öllum flokkum.“

Galið að ætla að ná 20 milljörðum

Þó að ferðaþjónustan eigi vissulega mikið undir stjórnmálunum eins og aðrar atvinnugreinar, segir Jóhannes Þór ekki hægt að segja að ferðaþjónustan hafi fagnað þegar ríkisstjórn síðasta árs féll.

„En því var að sjálfsögðu fagnað þegar það kom í ljós síðar að þessum algölnu hugmyndum um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna hafði verið hnekkt,“ segir Jóhannes en hann segir það alrangt að ferðaþjónustan fái einhvern afslátt þrátt fyrir að fyrirtæki innan hennar séu á lægra virðisaukaskattþrepi.

„Það er ekki afsláttur heldur eðlilegar samkeppnisforsendur. Þeir sem tala svona verða að átta sig á því að ferðaþjónustan er í alþjóðlegri samkeppni við ferðaþjónustu út um allan heim. Virðisaukaskattur á gistingu í Evrópu er til dæmis yfirleitt svipaður og hér eða jafnvel lægri. Alþjóðlegt ferðaþjónustuumhverfi er einfaldlega þannig að ef virðisaukaskattþrepið er hækkað þá skaðar það samkeppnishæfni greinarinnar og þar með hagsmuni landsins alls, mjög mikið.“

Jóhannes segir hugmyndir um að hægt væri að ná 20 milljörðum út úr ferðaþjónustunni galnar, eins og lagt var upp með í fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir árið 2018.

„Á síðasta ári skilaði ferðaþjónustan sem atvinnugrein um 60 milljörðum króna í nettótekjum til ríkis og sveitarfélaga, þannig að allt tal um að ferðaþjónustan sé ekki að skila sínu, vísa ég út í hafsauga. Það er einfaldlega rangt og menn eiga að hætta að tala svona,“ segir Jóhannes Þór sem einnig hefur athugasemdir við áætlanir núverandi ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að skoða komu- og/eða brottfarargjöld.

„Við sem samtök erum alveg tilbúin í það samtal en ferðaþjónustan er ekki einhver ótæmandi gullkista sem hægt er að seilast ofan í eins og mönnum sýnist. Við erum svolítið brennd af því að stjórnvöld fái alls konar skyndihugmyndir, en við leggjum áherslu á að vera með í ráðum því ferðaþjónustan vill að sjálfsögðu leggja sitt til samreksturs þjóðfélagsins. Það verður til dæmis að taka tillit til þess að þótt fjöldi ferðamanna sé mikill er rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja að mörgu leyti erfitt. Þetta er útflutningsrekstur þar sem gengi krónu hefur mikil áhrif sem og launakostnaðurinn enda mannaflsfrek grein. Allt þýðir þetta að framlegðin hjá mörgum fyrirtækjum er ekki næg til að taka á sig viðbótargjaldtöku.“

Aukagjöld klípa meira og meira af rekstrinum

Jóhannes Þór leggur áherslu á að horfa þurfi á möguleg komu- og brottfarargjöld í samhengi við aðra gjaldtöku sem hefur verið að aukast víða í ferðaþjónustunni undanfarin ár eftir að hugmyndir um Náttúrupassa urðu ekki að veruleika.

„Það verður að horfa á sviðið í heild sinni, skoða þá gjaldtöku sem þegar er í gangi og loka þessari umræðu með skynsamlegum hætti til framtíðar í samhengi við stefnumótun í ferðamálum landsins. Það er ekki sjálfsagt að hægt sé að bæta við nýrri gjaldheimtu ofan á það sem er fyrir í dag. Sérstaklega ef síðan væri stöðugt haldið áfram að bæta við alls konar aukagjöldum, bílastæða- og aðgangsgjöldum og einhverju öðru, sem klípur sífellt meira og meira af rekstrinum án þess að það liggi fyrir heildarmynd af gjaldtöku af ferðaþjónustunni i landinu og rekstrarumhverfi hennar í alþjóðlegu samhengi,“ segir Jóhannes Þór.

Hann fagnar því að nú sé að hefjast greining á gjaldtöku í ferðaþjónustunni á vegum Stjórnstöðvar ferðamála sem Samtök ferðaþjónustunnar eiga aðild að.

„Þar verður skoðað með hvaða hætti gjaldtakan fer fram í dag og hvort ástæða sé til að breyta því. Það er mjög jákvætt að sú skoðun fari fram á þessum samstarfsvettvangi stjórnvalda og  ferðaþjónustunnar því það hefur löngu sýnt sig að þar sem samráðið er ekki nægilega mikið, skapar það alltaf á endanum vandamál. Til dæmis sáum við fyrir skömmu síðan þreföldun á gistináttagjaldinu með litlum fyrirvara og svo hugmyndirnar um virðisaukaskattshækkunina í fyrra sem kom með engum fyrirvara og ekkert samráð haft við samtökin um.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .