Heildartekjur fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar námu 278 milljörðum króna árið 2020 og drógust saman um 56,9% á föstu verðlagi frá fyrra ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar . Afkoma ferðaþjónustufyrirtækja var neikvæð um 89 milljarða króna en til samanburðar var hagnaður fyrirtækja í greininni, miðað við verðlag 2020, samtals 94 milljarðar á árunum 2015-2017 sem eru þrjú af fjórum arðbærustu árum í sögu íslenskrar ferðaþjónustu.

Eigið fé fyrirtækja í ferðaþjónustu lækkaði um meira en helming á milli ára eða úr 171 milljarði í 84 milljarða. Á sama tíma var skuldastaða greinarinnar svipuð á milli ára þrátt fyrir að fyrirtækjum fækkaði nokkuð en langtímaskuldir námu 354 milljörðum og skammtímaskuldir 147 milljörðum í árslok 2020.

Afkoma og tekjur ferðaþjónustunnar 2010-2020 (verðlag 2020)
Afkoma og tekjur ferðaþjónustunnar 2010-2020 (verðlag 2020)

Hagtölur í myndinni miða við fast verðlag 2020.

Þörf á nýju fé í greinina

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir ljóst að fyrirtækin í greininni þurfi næstu árin að takast á við „gríðarstóra snjóhengju skulda“ sem safnast hafi upp frá því að faraldurinn hófst. Í því ljósi hefur hann sérstaklega áhyggjur af því hvort þau geti staðið undir skammtímaskuldum sínum.

Heildarstuðningur hins opinbera til ferðaþjónustunnar vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins nam nærri 35 milljörðum króna árið 2020 eða um 53% af stuðningi stjórnvalda til rekstraraðila, samkvæmt Ferðamálastofu. Jóhannes segir aðgerðir stjórnvalda hafa komið mjög vel til móts við rekstrarvandræði fyrirtækja í greininni. Hins vegar hafi ekki verið brugðist við erfiðri skuldastöðu ferðaþjónustufyrirtækja.

„Það er veruleg þörf á nýju fjármagni inn í greinina,“ segir Jóhannes. Í því samhengi nefnir hann að stjórnvöld geti stutt við viðspyrnu ferðaþjónustunnar um að koma á jákvæðum hvötum fyrir fjárfestingu í greininni eða tryggja fjármagn í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Einnig telur hann mikilvægt að ríkið taki frumkvæði í að leiða kröfuhafa lítilla og meðalstórra ferðaþjónustufyrirtækja að borðinu með svipuðum hætti og gert var með Beinu brautinni, úrræði stjórnvalda eftir fjármálahrunið 2008.

„Það er þörf á slíkum aðgerðum í þessari grein núna því að öðrum kosti er ljóst að þessi vandi mun liggja þungt á fyrirtækjunum og hamla viðspyrnu þeirra verulega,“ segir Jóhannes og bætir við að ofan á skuldastöðuna og sóttvarnatakmarkanir kemur hækkandi launakostnaður. Laun sem hlutfall af tekjum í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar liggja almennt á bilinu 40%-60%.

Umræðan oft eins og kreppan sé búin

Jóhannes kveðst hugsi yfir því hvernig opinber umræða hefur þróast á undanförnum mánuðum vegna fjölgunar ferðamanna, bata í ákveðnum atvinnugreinum og minnkandi atvinnuleysi. Margir tali eins og að efnahagskreppan sé að renna sitt skeið og hér sé komið upp rekstrarumhverfi sem megi vel við una.

„Vandamálið er að þessi stóra atvinnugrein er enn í rjúkandi báli. Fyrirtækin í henni eru með efnahagsreikninga sem eru í tómu tjóni og vantar gríðarmikið eigið fé til þess að geta náð sér upp úr því. Þau eru enn að berjast við stórkostleg vandamál í sölu og ferðalögum á milli landa, alls konar takmarkanir ásamt ferðavilja sem sveiflast fram og til baka eftir því hvaða fréttir koma af nýjum afbrigðum. Greinin mun þurfa að takast á við þennan vanda í það minnsta í 3-4 ár í viðbót.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .