Bættar samgöngur og ekki síst stuðningur við lítil fyrirtæki eru þeir þættir sem helst þarf að bæta úr til þess að efla ferðamannaiðnaðinn á Vestfjörðum. Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, kynnti í fyrradag nýja skýrslu þar sem fjallað er um mögulega vaxtarbrodda í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Í henni kemur meðal annars fram að aðeins brot af þeim erlendu ferðamönnum sem hingað koma sækja landshlutann heim.

Á kynningarfundinum voru nokkrir þingmenn, þar á meðal Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann ljóst að það felist mikil tækifæri í íslenskri náttúru og menningu.

„Verndarsjóður villtra laxastofna hefur látið mjög margt gott af sér leiða og mér finnst alltaf ánægjulegt þegar hugsað er í lausnum. Þetta eru náttúruverndarsamtök án öfga en benda samt á augljósar hættur sem eru til staðar,“ segir Guðlaugur Þór. „Það eru miklir möguleikar á Vestfjörðum sem hafa orðið svolítið út undan í þessari ferðamannasprengju sem hér hefur orðið. Þessi skýrsla opnar augu manns fyrir þeim möguleikum sem þarna eru.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .