Félagsmenn í Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) munu í lok mánaðarins ganga til kosninga um það hvort þeir vilji fara í verkfall. Í fyrradag slitnaði upp úr viðræðum sambandsins við Samtök atvinnulífsins (SA). Viðræðunum var fyrir mánuði síðan vísað til ríkissáttasemjara sem stýrir viðræðuáætluninni. Samkvæmt henni ber að funda á minnst tveggja vikna fresti og því liggur fyrir að næsti fundur um launaliðinn verði þriðjudaginn 24. mars.

„Það sem er í kortunum núna eru þessir lögboðnu fundir fyrir milligöngu ríkissáttasemjara," segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS. „Annað er ekki fyrirhugað nema kannski einhverjir stuttir fundir um einstaka mál en engir um launaliðinn. Miðað við viðbrögðin sem við fengum í gær [í fyrradag] og þessa ákvörðun sem við ákváðum að taka, að slíta viðræðunum, sem er ekki ekki léttvæg ákvörðun, þá reikna ég frekar með aðgerðum en ekki."

11 til 13 þúsund manns

Drífa segist reikna með því að gengið verði til atkvæðagreiðslu um verkfall í lok mánaðarins. Ef félagsmenn samþykki þá sé líklegt að verkfall hefjist í kringum 10. apríl, eða fljótlega eftir páska. Hún segir að verkfallið myndi ná til 11 til 13 þúsund félagsmanna Starfsgreinasambandsins.

„Þetta er til dæmis fiskvinnslufólk og ræstingafólk en einnig starfar stór hópur af okkar félagsmönnum í ferðaþjónustu úti um allt land. Það eru til að mynda ófaglærðir starfsmenn á veitingahúsum, gistiheimilum, hótelum og síðan hópferðabílstjórar. Aðgerðirnar munu fyrst og fremst bíta í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Við erum svolítið að horfa á ferðaþjónustuna enda er þetta sá tími."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .