Ferðaþjónustan heldur áfram að blása út. Árið 2013 varð hún sú atvinnugrein sem skilaði mestum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og tók þar með fram úr áliðnaðinum og sjávarútveginum. Hlutur ferðaþjónustu í gjaldeyristekjum hefur vaxið úr 18,8% í 27,9% á árunum 2010 til 2014.

Í fyrra skilaði greinin 302 milljarða gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Ekki er útlit fyrir annað en að ferðaþjónustan haldi áfram á sömu braut. Raunar gera spár ráð fyrir því að enn muni draga í sundur með ferðaþjónustunni og hinum atvinnugreinunum tveimur þegar kemur að sköpun gjaldeyristekna. Áætlanir gera ráð fyrir að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu verði 350 milljarðar króna á þessu ári.

Í nýrri ferðamálastefnu ferðaþjónustunnar, sem kynnt var í byrjun mánaðarins, er gert ráð fyrir að gjaldeyristekjur greinarinnar muni nema 620 milljörðum árið 2020 og að þær fari líklega yfir 1.000 milljarða árið 2030. Til samanburðar eru áætlað að heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar á þessu ári muni nema um 1.140 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .