*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 22. maí 2017 12:02

Ferðaþjónustan gefur meðbyr

Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa, segir ferðaþjónustuna gefa dagvöruverslun meðbyr og að áhrifin af komu Costco séu ofmetin.

Snorri Páll Gunnarsson
Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa.
Haraldur Guðjónsson

Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa, segir ferðaþjónustuna gefa íslenskri dagvöruverslun meðbyr og að áhrifin af komu Costco séu ofmetin.

Nú styttist óðum í komu Costco hingað til lands. Hvaða áhrif mun það hafa?

„Costco mun hafa áhrif á mjög marga markaði og sölustig. Costco mun hreyfa við heildsölunum. Fyrr í vetur kom fram í fjölmiðlum að heildsalar hafi farið til útlanda til að ná í betri verð vegna komu Costco. En maður veltir fyrir sér af hverju þeir voru ekki búnir að því fyrir löngu síðan. Af hverju þurfti Costco að ýta við þeim? Hverra hagsmuni voru þeir að gæta? Costco mun einnig hreyfa við smásölunni á mörgum mörkuðum, því Costco spannar svo vítt svið – allt frá bílavörum og bensíni niður í snyrtivörur. En ég veit ekki hversu mikil áhrifin verða. Í ljósi þess að þeir eru með svo marga vöruflokka, en ætla samt að vera með aðeins 3.800 vörunúmer, þá held ég að menn séu að ofmeta áhrifin af komu Costco. Þetta eru ekki mörg vörunúmer í hverjum vöruflokki.

Almennt held ég að Costco muni veita meiri samkeppni og stuðla að lægra verði. Ég held einnig að Costco muni breyta neysluhegðun og innkaupamynstri fólks að einhverju leyti. En þó svo að þetta sé alþjóðlegur risi eru samkeppnisreglur og það er ágætt að rifja upp að þegar Walmart ætlaði á markað í Þýskalandi á sínum tíma bentu þýsk samkeppnisyfirvöld þeim á að þeir gætu ekki komið inn á markaðinn í krafti stærðar sinnar á heimsvísu og verið með undirboð.

Í umræðunni um Costco er hættan sú að menn séu að nota tækifærið til að koma einhverjum fyrirtækjakaupum í gegn með vísan til þess að það séu svo miklar breytingar og óvissa fram undan. Það er nú bara þannig á samkeppnismarkaði að meginforsenda fyrir því að samkeppni þrífist og eigi sér stað er að það sé til staðar óvissa. Allt sem heitir fyrirsjáanleiki dregur úr samkeppni. Frelsið felst ekki í einhæfni. Neytandinn á að láta okkur hlaupa. Fyrirsjáanleiki er ekkert annað en áætlanabúskapur.“

Hvaða áhrif hefur ferðaþjónustan haft á rekstur Samkaupa?

„Það munar verulega um verslun erlendra ferðamanna í verslunum okkar. Áhrifin á dagvöruverslun af fjölgun ferðamanna til Íslands yfir allt árið eru mest utan höfuðborgarsvæðisins, þótt áhrifin séu misjöfn eftir landshlutum. Verslun á landsbyggðinni er að styrkjast vegna aukinnar ferðamennsku og það er auðveldara að ráðast í framkvæmdir með slíkan meðbyr. Í höfuðborginni er ferðamaðurinn frekar á veitingastöðum og hótelum. Á landsbyggðinni er hann á keyrslu, annaðhvort á einkabílum eða húsbílum. Þeir sem eru á ferðabílum kaupa dagvöru.

Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er þó að nýta þennan meðbyr sem erlendir ferðamenn eru að gefa versluninni, án þess að falla í þá gryfju að láta verslun fara að snúast eingöngu í kringum ferðamanninn. Annars stöndum við uppi með eintómar lunda- og samlokubúðir. Íslenski neytandinn er hér til staðar allt árið. Við viljum samt koma betur til móts við það sem ferðamað- urinn er að leita að. Samspil verslunar við ferðaþjónustuna er því áskorun, en einnig tækifæri. En þetta er eins og annað. Landinn er að læra á þetta á meðan þetta er að gerast og breytast hratt.“

Horfa til höfuðborgarsvæðisins

Hvernig blasir framtíðin við ykkur hjá Samkaupum? Hvaða áskoranir eða verkefni eru fram undan?

„Stærsta áskorunin er einfaldlega að gera betur í dag heldur en í gær og sinna neytandanum betur. Við viljum auka hlutdeild okkar á höfuðborgarsvæðinu. Fjórðungur veltunnar kemur frá höfuðborgarsvæðinu þó svo að um 60% íbúa landsins búi þar. Það er því mjög eðlilegt að við leitum leiða til að auka vægi rekstursins á höfuðborgarsvæðinu.“

Nánar er rætt við Ómar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.