Hlutur ferðaþjónustunnar nemur 6% af landsframleiðslu á sama tíma og hlutur fiskvinnslu og veiða nemur 11%. Af því er ljóst að ferðaþjónustan hefur slitið barnsskónum, að sögn Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra. Hann var til svara í sérstökum umræðum á Alþingi í dag um stöðu ferðaþjónustunnar og sagði markmiðið hér ekki eiga að felast í því að fjölga ferðamönnum heldur að þeir skilji eitthvað eftir í hagkerfinu

Það var Ásmundur Einar Daðason sem var málshefjandi og var umræðuefnið hugsanleg áhrif af fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna.

Ásmundur sagði ríkið ætla að taka til sín 2,6 milljarða króna með með hækkun skattsins úr 7% í 25,5%. Hann lagði á það ríka áherslu að ferðaþjónustan þolir ekki slíkar álögur, allra síst stærstu hótel landsins þar sem framlegðin var 600 milljónir króna í fyrra. Hann sagði ómögulegt að leggja skattinn á í einu lagi, ferðaþjónustan þurfi tíma til að aðlaga sig.

„Ef ekki er hoggið á hnútinn þá mun Framsóknarflokkurinn láta það verða eitt sitt fyrsta verk að bæta stöðu ferðaþjónustunnar,“ sagði hann.

Steingrímur rifjaði á móti upp að virðisaukaskattur hafi verið lækkaður hér niður í 7% í þenslunni árið 2007. Árið eftir hafi gengi krónunnar hrunið og við það skapast hagstæð skilyrði fyrir ferðaþjónustuna. Hann sagði í erindi sínu vafa leika á því hvort lækkunin hafi skilað sér til neytenda.

„Ég er samt ekki viss um að það hafi skilað sér í verðlækkun til kúnnanna. En það er líka rétt að markmiðið á ekki að vera aukinn fjöldi ferðamanna heldur að þeir skili eitthvað eftir í hagkerfinu. Mér finnst satt best að segja að hræðsluáróður skili okkur ekki áfram.“