Í fjármálstöðugleikariti Seðlabankans kemur fram að útlán til ferðaþjónustu nemi rúmlega 14% af heildarútlánum viðskiptabankanna til fyrirtækja.

Mældist ársvöxtur þeirra 27% á árinu 2016, en enn sem komið er vega útlán til greinarinnar ekki nema 8,5% af heildarútlánum viðskiptabankanna til viðskiptavina, þrátt fyrir að vera orðin sú atvinnugrein sem afli meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur.

Fjármögnuð utan bankakerfisins

Segir í ritinu að útlán tengd ferðaþjónustunni vegi því ekki mjög þungt í bókum viðskiptabankanna, en þó gæti útlánaáhætta þeim tengd verið hlutfallslega nokkuð mikil, og gætu efnahagsaðstæður versnað sem og útlánatap í öðrum greinum aukist ef mikill samdráttur yrði í greininni.

Útlánavöxturinn er þó minni en fjölgun ferðamanna, en mikil uppbygging í kringum greinina er að einhverju leyti fjármögnuð utan bankakerfisins, af einstaka fagfjárfestasjóðum eða með stofnun samlagshlutafélaga um einstakar fjárfestingar. Þar eru lífeyrissjoðirnir í mörgum tilfellum kjölfestufjárfestar.

Næmi minna en annarra útflutningsgreina

Af hröðum vexti ferðaþjónustunnar og mikilli gengisstyrkingu krónunnar síðan ræður Seðlabankinn að næmi ferðaþjónustunnar fyrir gengisstyrkingunni sé minna en annarra útflutningsgreina, sem þýði að áhrifin birtist líklega með verulegri tímatöf.

Leggur bankinn áherslu á að aðlögunin að nýju jafnvægi geti orðið sveiflukennd, verði sveiflur í greininni ögakenndar, og að fjármálakerfið þurfi að vera undir það búið.