Af þeim rúmlega 40 fyrirtækjum sem skráð voru í hlutafélagaskrá í síðustu viku voru 10 fyrirtæki tengd ferðaþjónustu eða kvikmyndaframleiðslu, samkvæmt Lögbirtingarblaðinu.

Í aðdraganda stærsta ferðamannasumars í sögu Íslands kemur eflaust ekki á óvart að þeim fjölgi sem taka vilja þátt í ört vaxandi útflutningsgrein. Spáði Landsbankinn því meðal annars í síðasta mánuði að ferðamönnum myndi fjölga um 18% á þessu ári og aftur um 15% á því næsta. Samkvæmt nýjustu hagtölum er ferðaþjónustan nú orðin stærsta útflutningsgrein landsins, ef tekið er mið af útflutningstekjum, en tekjurnar námu um 275 milljörðum króna á síðasta ári. Til samanburðar má nefna að útflutningstekjur í tengslum við sjávarútveginn voru í fyrra rúmir 272 milljarðar króna. Virðist skráning hlutafélaga bera vott um bjartsýni í ferðaþjónustugreininni. Fyrirtæki á borð við Iceland Offer Tours ehf. og Snæfellsjökull Glacier Tours ehf., sem stofnuð voru í síðustu viku, ætla að selja ferðir og þjónustu til ferðamanna og stefnir fyrirtækið Raftanna ehf. á ráðgjöf á sviði ferðamennsku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .