Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók í nóvember á síðasta ári við embætti umhverfisog auðlindaráðherra í ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur. Guðmundur sem er einn af ráðherrum Vinstri grænna er jafnframt sjötti utanþingsráðherrann sem skipaður hefur verið á lýðveldistímanum. Áður en hann tók við starfi ráðherra var Guðmundur framkvæmdastjóri Landverndar frá 2011-2017 en hefur þar að auki starfað lengi á sviði umhverfismála. Hann er með BSc gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í umhverfisfræðum frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

„Þetta hefur verið einstaklega lærdómsríkt,“ segir  Guðmundur spurður um hvernig  fyrsta tæplega árið í starfi hafi verið. „Í fyrri störfum hafði ég kynnst starfi þingsins utan frá og þá sérstaklega starfi í nefndum þar sem ég var tíður gestur til þess að tala fyrir málum, líka í ráðuneytinu, bæði þessu og öðrum ráðuneytum. Ég þekkti þetta því utan frá, sem hjálpaði mér, en náttúrulega ekki innan frá.

Það má segja að maður sé að læra tvennt nýtt, annars vegar hvað varðar þingið og hins vegar ráðuneytið. Ég bý þó að því að vera með menntun á þessu sviði og að hafa unnið í þessum geira allan minn starfsferil ef frá eru talin sumarstörf í sveit og við ferðaþjónustu sem tengjast þessu þó óbeint. Ég var því vel inni í mörgum málum og málaflokkum.

kynnast þingmönnum, starfinu í þingnefndum og svo því að flytja mál á Alþingi. Þau mál sem ég flutti í fyrravetur og á síðasta löggjafarþingi voru mál eins og ný löggjöf um skiplag haf- og strandsvæða sem ég tel að sé gríðarlega mikilvægt skref í skipulagsmálum á Íslandi. Þá má líka nefna styrkingu á innleiðingu Árósarsamningsins á Íslandi sem fjallar um rétt almennings til þátttöku í stefnumótun um umhverfismál. Ég vil líka nefna þingsályktunartillögu um stefnumótun í málefnum sem varða samspil ferðaþjónustu og náttúruverndar, þ.e. áhrif ferðaþjónustunnar á náttúruna og stefnumótandi þætti um hvernig nálgast megi þau viðfangsefni, m.a. uppbyggingu innviða til verndar náttúrunni,“ segir Guðmundur.

Ferðaþjónustan opnaði augu okkar.

Að sögn Guðmundar hefur gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu á síðustu árum opnað augu Íslendinga fyrir náttúruvernd. „Í gegnum tíðina hefur umræða um náttúruvernd verið ansi tvískipt – með eða á móti – sem er röng nálgun að mínu mati. Við festumst oft í að vera með eða á móti í ákveðnum málum. Virkjanamál eru gott dæmi um það en mér finnst þetta vera að breytast.

Varðandi ferðaþjónustuna og ferðamannastrauminn þá erum við að horfa á tölur sem sýna að um 80% af þeim sem koma til Íslands nefna náttúru landsins sem helstu ástæðuna. Fólk hér á landi er betur og betur að átta sig á mikilvægi þess að gæta náttúrunnar vel. Í henni felast svo mikil auðæfi. Vernd náttúrunnar náttúrunnar vegna er auðvitað mjög mikilvæg, en líka út frá efnahagslegu sjónarhorni. Til þess að geta haldið áfram að selja þessa vöru sem náttúran er þarf að hlúa að henni. Þetta smitar svo út í umræðuna, ekki bara um ferðamannastaðina heldur líka til dæmis virkjanamál, enda hefur það áhrif á ímynd landsins,“ segir ráðherrann.

„Eins og með alla aðra nýtingu á náttúrunni verður hún aldrei án fótspora. Þá er þetta spurning um hvernig við getum, eins og í þessu tilfelli, haldið áfram að nýta náttúruna fyrir ferðaþjónustu án þess að áhrifin af því verði neikvæð, bæði til lengri og skemmri tíma. Til þess þurfa stjórnvöld að koma sér upp ákveðnum tækjum og sum þeirra eru þegar til staðar.

Við Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra kynntum núna í vor áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum á friðlýstum svæðum. Þetta felur m.a. í sér sjóð í ráðuneytinu hjá mér en líka hjá henni. Hluti þessa fjármagns fer þannig á svæði sem við erum búin að segja að séu merkileg út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Þarna er komið fjármagn til þess að sinna hreinlætisaðstöðu, í sumum tilfellum uppbyggingu bílastæða því þau hafa ekki verið til eða verið af skornum skammti, göngustíga o.s.frv.

Við Þórdís Kolbrún settum sérstaklega fjármagn í að þróa aðferðir hér á Íslandi við að setja þessa innviði inn í náttúruna þannig að þeir falli vel að henni og hún tapi ekki aðdráttaraflinu sem hún hefur. Aðdráttarafl íslenskrar náttúru felst ekki síst í því að hún er lítt snortin á mörgum þeim stöðum sem heimsóttir eru og þessu verðum við að viðhalda. Eitt af þeim áhersluatriðum sem ég setti inn í langtímaáætlun um uppbyggingu  innviða, sem samþykkt var á Alþingi í vor og þar sem við erum að reyna að láta ferðaþjónustuna og náttúruverndina vera tannhjól sem snúast saman en ekki á móti hvort öðru, er að við verðum líka að eiga áfram staði í íslenskri náttúru þar sem við setjum ekki upp viðamikla innviði. Þar sem staðirnir eru einfaldlega þannig að þeir verða að fá að njóta sín án slíks. Það þýðir þá að færri geta komið þangað og við verðum að beita einhverjum aðferðum við að stýra fjöldanum sem þangað kemur. Ég held að við eigum ótal tækifæri þarna en það sem hefur gerst á síðustu árum er að ferðamannastraumurinn hefur aukist svo gríðarlega hratt að viðbrögðin hafa fylgt svolítið hægt á eftir.“

Myndir þú segja að vöxtur ferðaþjónustunnar hafi hjálpað náttúruverndarsjónarmiðum?

„Já, ég held það vegna þess að fólk hefur gert sér meira grein fyrir efnahagslegum verðmætum náttúrunnar. Glöggt er gests augað og við lærum margt af fólki sem sækir okkur heim og sér hlutina oft með öðrum hætti en við gerum sjálf. Eitt þeirra sjónarhorna tengist einmitt því hversu bergnumið fólk er oft af náttúru landsins okkar. Ég held að upplifun ferðamannanna hjálpi okkur að skilja  enn þá  betur hvaða gullgæs við höfum í höndunum.“

Nánar er rætt við Guðmund Inga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .