Samtök ferðaþjónustunnar eru ósátt við fyrirhugaða ráðstöfun þess gistináttarskatts sem Alþingi hefur samþykkt að leggja á um næstu áramót. Samtökin segjast í fréttatilkynningu hafa lagt á það mikla áherslu í umsögn um frumvarpið að skatturinn rynni óskiptur til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

Lög um 100 kr. aukagjald af hverri gistináttaeiningu voru samþykkt á Alþingi sl. laugardag og munu tekjur af skattinum skiptast þannig að 60% renna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en 40% til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði.

„Eðlilegra hefði verið að féð færi allt í sama sjóðinn og var ítrekað lögð áhersla á það við efnahags- og skattanefnd en á það var ekki hlustað.   Þessir fjármunir munu falla undir tvö ráðuneyti og fara flókna leið og treysta samtökin því ekki að þessir peningar skili sér að fullu," segir í tilkynningu samtakanna.