Þann 30. maí síðastliðinn fór aðalfundur Íslenska ferðaklasans fram. Á fundinum var farið yfir nýliðið starfsár klasans og þá þróun sem hefur átt sér stað hjá klasasamstarfinu síðan hann var formlega stofnaður árið 2015. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslenska ferðaklasanum.

Hlutverk Ferðaklasans er fyrst og fremst það að auka samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu og efla þá mikilvægu verðmætasköpun sem verður að eiga sér stað í greininni að sögn Sævars Skaptasonar, sem er formaður stjórnar Ferðaklasans.

„ Líkt og við þekkjum ganga allar atvinnugreinar í gegnum sveiflur og þar er ferðaþjónusta engin undantekning. Eftir sívaxandi fjölgun ferðamanna á síðustu árum virðist sem ákveðið jafnvægi sé í kortunum og spurning hvort við lítum á það sem ógn eða tækifæri. Við eigum tækifæri í að fræða samlanda okkar um mikilvægi greinarinnar, mikilvægi þess að stunda heiðarlega viðskiptahætti auk þess að koma fram við gesti okkar, starfsmenn og náttúru af vinsemd og virðingu. Komandi tímar verða að einhverju leyti sársaukafullir en um leið þroskamerki á atvinnugrein sem verður að huga að nýsköpun og þróun til að viðhalda auknum gæðum, meiri framlegð og hagkvæmni í rekstri“ er haft eftir Sævari í fréttatilkynningunni.

Íslenski ferðaklasinn stóð fyrir 50 fundum af margvíslegu tagi á starfsárinu maí 2017 til maí 2018.

Framkvæmdastjóri Ferðaklasans, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, fór svo yfir liðið starfsár ásamt helstu áherslum komandi mánaða. Mikil áhersla verður lögð á rekstrarlega uppbyggingu fyrirtækja, greiningu, fyrirliggjandi gagna, aukna vöruþróun, nýsköpun, tækni og stafræna þróun.

Ný stjórn

Ný stjórn Ferðaklasans fyrir næsta starfs- og rekstrarár var valin á fundinum ásamt því að formaður stjórnar fékk endurnýjað umboð.

Ný stjórn ferðaklasans eftir aðalfund er:

  • Sævar Skaptason, formaður stjórnar fyrir Hey Iceland
  • Helga Árnadóttir fyrir Bláa lónið
  • Hildur Ómarsdóttir fyrir Icelandair Group
  • Kristín Hrönn Guðmundsdóttir fyrir Íslandsbanka
  • Daði Már Steinþórsson fyrir Valitor
  • Þorsteinn Hjaltason fyrir Landsbankann
  • Elín Árnadóttir fyrir Isavia
  • Rannveig Grétarsdóttir fyrir Eldingu
  • Helgi Jóhannesson fyrir Lex lögmenn

Varamenn í stjórn Ferðaklasans eru:

  • Bergrún Björnsdóttir fyrir Bláa lónið
  • Pétur Óskarsson fyrir Icelandair Group
  • Bjarnólfur Lárusson fyrir Íslandsbanka
  • Pétur Pétursson fyrir Valitor
  • Davíð Björnsson fyrir Landsbankann
  • Hrönn Ingólfsdóttir fyrir Isavia