Um 7.500 ný störf hafa skapast í ferðaþjónustunni hér á landi á síðustu fimm árum sem er um 75% aukning. Þetta kemur fram í nýjum mælingum Hagstofunnar þar sem miðað er við alþjóðlega skilgreiningu starfa í ferðaþjónustu og Viðskiptamogginn greinir frá .

Böðvar Þórisson, skrifstofustjóri fyrirtækjasviðs Hagstofunnar, segir í samtali við Viðskiptamoggann að á Íslandi séu tæplega 180 þúsund störf. Ekki hafi orðið nein breyting að ráði á heildarfjölda starfa í landinu frá árinu 2008 og því hafi þessi nýju störf sem skapast hafa í ferðaþjónustu komið í stað starfa í öðrum atvinnugreinum.

Aukning starfa í ferðaþjónustu er meiri en sem nemur heildarfjölda starfa í mörgum öðrum atvinnugreinum. Þannig starfa til dæmis 1.900 í orkufrekum iðnaði, við fiskveiðar 4.400 manns og í fiskiðnaði 4.700 manns. Í júnímánuði voru 21.400 manns starfandi við ferðaþjónustu.