Heildartekjur af þjónustuútflutningi á þriðja ársfjórðungi 2016 voru, samkvæmt bráðabirgðatölum, 229,4 milljarðar króna en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu 107,8 milljarðar samkvæmt tölum Hagstofunnar.

„Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 121,6 milljarða króna en var jákvæður um 94 milljarða á sama tíma árið áður, á gengi hvors árs,“ segir í frétt Hagstofunnar.

„Ferðaþjónusta var stærsti liðurinn í inn- og útfluttri þjónustu á ársfjórðungnum og nam afgangur hennar 72,8 milljörðum. Afgangur af samgöngum og flutningum nam 62,8 milljörðum. Mestur halli var af annarri viðskiptaþjónustu eða 20,3 milljarðar.“