*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 22. janúar 2017 16:04

Ferðaþjónustan styrkir sjávarútveginn

Nálægð við flugvelli styrkir allan iðnað í grennd við þá, og hefur íslenskur sjávarútvegur unnið nýja markaði með auknu farþegaflugi.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Mikill vöxtur í ferðaþjónustu á Íslandi er ekki bara að keppa við sjávarútveginn um starfsfólk og hækka gengi krónunnar í hans óþökk heldur hefur vöxtur farþegaflugs einnig hjálpað til við að búa til nýja markaði fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Þetta kom fram í máli Birgis Össurarsonar, sölu- og markaðsstjóra Ice Fresh Seafood á ráðstefnu Isavia og Kadeco um tengsl Keflavíkurflugvallar við atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi.

Fjallaði Birgir þar um hve mikilvægt flugið væri fyrir útflutning á ferskum firski. Ice Fresh Seafood er í eigu Samherja að því er fram kemur í frétt Vísis um málið.

Virðisauki skapast af nálægð við flugvöll

„Vanmetið er hversu mikill virðisauki hefur skapast í sjávarútvegi út af Keflavíkurflugvelli og þá sérstaklega í tengslum við leiðakerfi Icelandair,“ sagði Mikael Tal Grétarsson, forstöðumaður útflutnings hjá Icelandair Cargo.

„Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að íslenskur sjávarútvegur er leiðandi í heiminum."

Botnfiskverkun flust á suðvesturhornið

Á fundinum ræddi Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, mikilvægi nálægðar við flugvelli fyrir hagvöxt, enda nýttu sér mörg fyrirtæki hann, enda væru góðar tengingar nauðsynlegur hluti af nútíma alþjóðaviðskiptum.

Benti Bjarki Vigfússon, hagfræðingur hjá Íslenska sjávarklasanum, á hversu mikill hluti botnfiskverkunar á Íslandi hafi flust í átt að suðvesturhorni landsins enda sífellt mikilvægara að vera nálægt neytandanum heldur en sjávarauðlindinni sjálfri.