„Það er ljóst í mínum huga að ef gestum fjölgar áfram eins og spár segja til um, sem allt bendir til, þá þarf að fara að flytja inn töluvert af vinnuafli til að mæta þessu,“ segir Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, í samtali við Fréttablaðið.

Í greiningu Hagstofunnar sem unnin var fyrir Morgunblaðið nýlega kemur fram að fólki sem starfar við ferðaþjónustu og tengdar greinar hafi fjölgað um 2.700 á árinu 2014, en í heild fjölgaði störfum í landinum um 2.800. Landsbankinn spáir því að ferðamönnum muni fjölga mikið á komandi árum og þeir verði 1.170 þúsund á þessu ári en árið 2021 verði þeir fleiri en tvær milljónir.

„Eins og staðan er í dag búum við ekki yfir nægjanlegum fjölda með færni til að mæta fjölda gesta og tryggja gæði þjónustu,“ segir Edward.