Könnun sem gerð var í fyrra á tíu vefsíðum íslenskra fyrirtækja með tilliti til verðmerkinga og frekari upplýsinga sýndu að í öllum tilfellum var vefsíðunum ábótavant. Flest fyrirtækin sem halda úti umræddum vefsíðum hafa nú bætt úr því. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Neytendastofa tekur reglulega þátt í samræmdum skoðunum á vefsíðum sem selja neytendum vörur eða þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessar skoðanir eru gerðar til þess að kanna brot á neytendalöggjöf og koma málum í betra horf.

Sumarið 2013 voru athugaðar í heildina 552 vefsíður sem selja flugför og hótelgistingu. Á Íslandi voru skoðaðar 10 vefsíður: vefsíður Flugfélags Íslands, Flugfélagsins Ernis, Icelandair og Wow air og vefsíður Central hotels, Grand hótel, Hilton, Hótel Edda, Hótel Rangá og Icelandair hotel.

Niðurstöður skoðunarinnar voru þær að 382 eða 69% af vefsíðunum 552 voru ekki í lagi. Hér á landi voru gerðar athugasemdir við allar tíu vefsíðurnar sem skoðaðar voru.

Yfirvöld í hverju ríki höfðu samband við fyrirtækin sem stóðu að baki hinum brotlegu síðum. Þangað til nú hafa 173 vefsíður verið leiðréttar og vegna þessara kröftugu aðgerða virða 62% síðanna nú réttindi neytenda. Eftirstandandi 38% mega búast við frekari aðgerðum þar sem evrópsk yfirvöld halda áfram vinnu til að tryggja að réttindi neytenda séu virt að fullu. Hafa 52 síður lofað úrbótum eða leiðréttingum. Níu af vefsíðunum tíu sem Neytendastofa gerði athugasemdir við hafa gert viðeigandi breytingar á síðunum sínum. Stofnunin vinnur því enn að máli vegna vefsíðu Flugfélagsins Ernis.

Vefsíðurnar voru athugaðar til að kanna hvort auðvelt væri að finna upplýsingar um þjónustuna; hvort verð væri birt á fyrsta stigi bókunarferilsins og hvort valfrjáls viðbótargjöld væru fyrirfram valin; hvort síðurnar gáfu upp póstfang þar sem koma mætti á framfæri spurningum og kvörtunum; auk þess sem kannað var hvort síðurnar höfðu að geyma skilmála sem væru aðgengilegir fyrir kaup.