Ferðaþjónustan er stærsta útflutningsgrein landsins og er verg landsframleiðsla á Íslandi háðari ferðaþjónustu en flest önnur ríki . Þrátt fyrir það er aðeins eitt fyrirtæki í ferðaþjónustu - Icelandair Group - skráð á markað hér á landi. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segist hafa fundið fyrir auknum áhuga fyrirtækja í ferðaþjónustu á skráningu á aðalmarkað og First North.

„Nokkur fyrirtæki hafa sýnt því áhuga og ég tel það vera tímaspursmál hvenær fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustu verði skráð á markað. Skráning getur dregið úr kostnaði við sameiningar og hagræðingu í greininni. Flest þeirra sem Kauphöllin hefur rætt við eru í því samhengi að líta til næstu tveggja til þriggja ára,“ segir Páll, en fyrirtæki í ferðaþjónustu eru um þessar mundir að hagræða í rekstri og leita leiða til að stækka og koma til móts við breytt rekstrarumhverfi .

Á næsta ári stefnir Arctic Adventures á skráningu á markað, auk þess sem WOW air stefnir á markað á erlendri grundu. Við stofnun Eldeyjar árið 2015 var einnig gert ráð fyrir því að fyrirtækið yrði skráð á markað milli 2020 og 2022. ALP, önnur stærsta bílaleiga landsins og sérleyfishafi Avis og Budget á Íslandi, hætti við skráningu á First North á síðasta ári vegna neikvæðrar þróunar í rekstrarumhverfinu, en útilokar ekki skráningu á komandi árum.

Sigrún Hjartardóttir, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að líklegt sé að skráningum fyrirtækja í ferðaþjónustu á hlutabréfamarkað hér á landi muni fjölga á komandi árum eftir því sem fyrirtækin hagræða í rekstri. Sérstaklega sé líklegt að skráningum fjölgi á First North, sem sé vaxtarmarkaður.

25 ferðaþjónustufyrirtæki skráð á Nasdaq Nordic

Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni eru alls 25 félög í geiranum „ferðaþjónusta og tómstundir“ (ferðaþjónusta, flugfélög, hótel, afþreying, veitingastaðir og spilavíti) skráð á aðalmörkuðum Nasdaq nordic af yfir 680 félögum. Þau eru tæplega 4% af fjölda skráðra félaga en tæplega 2% af markaðsvirðinu.

Flest eru félögin skráð í kauphöll Nasdaq í Stokkhólmi, eða 13. Er það 4% af fjölda félaga á markaðnum og 1,5% af markaðsvirðinu og 4% af fjölda félaga. Í Kaupmananhöfn eru sjö ferðaþjónustufyrirtæki skráð og eru þau 0,3% af markaðsvirðinu en 5,1% af fjölda skráðra félaga. Í Helsinki eru félögin fjögur og 0,8% af markaðsvirðinu og 3,1% af fjölda fyrirtækja.

Eins og áður segir er aðeins eitt ferðaþjónustufyrirtæki skráð á markað hér á landi, Icelandair Group, og er það 6,3% af skráðum fyrirtækjum á aðalmarkaði og 8,7% af markaðsvirðinu. Smæð markaðarins skekkir þó samanburðinn við aðra Nasdaq markaði á Norðurlöndum.

Í viðtali við 300 stærstu, tímarit Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sagði Páll að hlutabréfamarkaðurinn hér á landi ætti að vera með rúmlega 50 félög innanborðs miðað við stærð hagkerfisins, þar af 30 til 35 á aðalmarkaði og 15 til 20 á First North. Í dag eru 16 félög skráð á aðalmarkað og 5 á First North.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .