Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur áhyggjur af því að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna muni bitna mest á fyrirtækjum á landsbyggðinni. Segir hann færslu ferðaþjónustunnar úr lægra í almenna þrep virðisaukaskattsins, sem nú eru 24%, geta stórlaskað fyrirtæki í greininni, og einyrkjar og lítil fyrirtæki muni líkast til ekki þola hækkunina, að því er segir í Fréttablaðinu.

„Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á síðasta aðalfundi að verja greinina og ekki leggja íþyngjandi álögur á hana og skattleggja hana um of. Við erum sammála um að sú er ekki raunin nú í þessu samstarfi,“ segir Elliði sem segir Sjálfstæðisflokkinn ekki fara að eigin samþykktum með þessari hækkun.

„Ég verð að segja það að ég hef áhyggjur af stöðu ferðaþjónustufyrirtækja vegna hækkunar virðisaukaskatts. Nú á að reyna að ná sem mestu út úr greininni sem gæti haft þveröfug áhrif.“ Elliði merkir sömu þróun í ferðaþjónustu eins og átt hefur sér stað í sjávarútvegi.

„Það sem er að gerast núna er nákvæmlega það sama og gerðist varðandi sjávarútveginn. Þá átti að reyna að
hækka álögur á greinina í heild með þeim afleiðingum að fyrirtækjum fækkaði á meðan þau sem eftir urðu
stækkuðu og stækkuðu.“